Harmageddon

Sannleikurinn: Aldrei neitt í fréttum á þessu landi

Andri Þór Sturluson skrifar
Hamingjusamur fjölmiðlamaður að störfum við að uppfæra ferilskrá sína til að vera tilbúinn þegar honum verður á endanum sagt upp.
Hamingjusamur fjölmiðlamaður að störfum við að uppfæra ferilskrá sína til að vera tilbúinn þegar honum verður á endanum sagt upp.
Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi er erfitt og vinnan er andlega krefjandi á þær aumu sálir sem þar berjast um fréttaskotin eins og þríburar um athygli áfengissjúkrar móður.

Blaða- og fréttamönnum leiðist óstjórnlega í vinnunni, enda landið það mest óspennandi í Evrópu og merkilegir atburðir gerast bara ekki hér. Fjölmiðlar eru flestir reknir með halla þar sem enginn nennir að fylgjast með engu og sífellt er verið að spara. Blöðin glíma við sífellt minni lestur og sjónvarpsáhorfendur hafa flestir dáið úr elli fyrir löngu síðan og nú er notast við netið þar sem erlendar aðilar veita mikið betri þjónustu en innlendir, svipað eins og í vændisbransanum.

Vandamálið sem fréttamenn glíma við er af þeim toga að lítið er hægt að gera til að snúa þróuninni við. Það gerist aldrei neitt hérna og því ekki furða að fólk nenni ekki að fylgjast með fréttum. Hver óspennandi vikan á fætur annarri er að drepa fréttamiðlana og margir góðir fréttamenn hafa einfaldlega hætt og fundið sér annan starfsvettvang þar sem einhverja spennu er að fá. Hjá íslenska fréttamanninum eru allir dagar eins en síðastu dagar hafa verið sérstaklega viðburðarlitlir.

„Við spilum voða mikið og reyndum að láta tímann líða. Það gerist ekki mikið í þessu starfi en við erum hinsvegar alltaf á vaktinni ef ske kynni að eitthvað fréttnæmt gerist. Kosturinn við að vinna á fréttastofu er að maður getur lesið mikið, dundað sér og getur alltaf skroppið frá til að sinna einkaerindum. Eflaust myndu margir kalla starfið leiðinlegt en það venst og verður notalegt. Maður kann að meta kyrrðina,“ sagði fréttamaður Stöðvar 2 sem fréttastofa ræddi við í dag.

Enn ein tíðindalaus vika liðin og það eina sem okkur datt í hug til að fjalla um var eins og venjulega þegar ekkert er í fréttum - annað fjölmiðlafólk.

Margir hafa þá sýn á starf frétta- og blaðamanna að mikill hraði sé á öllu, alltaf brjálað að gera og í mörg horn að líta. Sú er þó ekki raunin hér á Íslandi. Sumir blaðamenn á Fréttablaðinu hafa ekki staðið upp úr stólnum mánuðum saman og mosi er byrjaður að vaxa utan á þeim.

„Það hefur ekkert fréttnæmt gerst í fleiri vikur. Ekkert. Við þurfum að leita til vina og ættingja eftir fréttum og því verða þær oft á tíðum eins og auglýsingar. Í fréttatíma um daginn fjölluðum við um Playstation leikjatölvur sem var svona greiði fyrir innflytjandann sem við þekkjum ágætlega og svo er frændi minn að prenta út ljósmyndir sem hann selur og við gátum kreist nokkrar mínútur út úr því. Það var að frétta. „Ætli við rúllum ekki með fyndið myndband af einhverju krúttlegu dýri sem fyrstu frétt í kvöld. Hafa verið einhver fyndin pöndumyndbönd á Youtube í gangi nýlega?“ spurði viðmælandi okkar sem hefur áralanga reynslu sem fréttamaður.

„Það er svo sem við þessu að búast. Ég myndi ekki ráðleggja neinum að vinna við þetta nema hann hafi gaman af því að sitja á rassinum og stara út í loftið. Þetta er lítið land. Svona smáþorp úti á landi þar sem ekkert skeður og maður getur ekki beðið eftir að flytja á brott þar sem lífið er.“





Sannleikurinn rekur öfluga og óvæga fréttastofu þar sem engum er hlíft og sannleikurinn skiptir ekki höfuðmáli. Sannleikurinn er háður öllum stjórnmálaflokkum og hagsmunaaðilum um fréttaefni sitt. Fréttastofa Sannleikans hefur Facebook-síðu þar sem aldrei gerist neitt.








×