Handbolti

Arnór má spila með Flensburg í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Mynd/Nordic Photos/Getty
Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Atlason hefur fengið grænt ljós frá læknum og má því spila á nýjan leik með þýska liðinu Flensburg Handewitt. Arnór verður í hópnum á móti TSV Hannover-Burgdorf í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld. Þetta kemur fram á heimasíðu Flensburg.

Arnór hefur ekkert spilað með Flensburg-liðinu síðan í nóvember þegar hann sleit hásin í Meistaradeildarleik. Hann er á sínu fyrsta og eina tímabili með en hann hefur gert samning við franska liðið Saint Raphael frá og með næsta tímabili.

Arnór meiddist á móti HSV Hamburg 19. nóvember síðastliðinn og var því ekki með íslenska landsliðinu á HM á Spáni. Ljubomir Vranjes, sænski þjálfarinn hjá Flensburg, fékk Ólaf Gústafsson til liðsins eftir að Arnór meiddist og hefur Ólafur staðið sig mjög vel hjá félaginu.

Flensburg-Handewitt er í 3. sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Kiel og tveimur stigum á eftir Rhein-Neckar Löwen sem er í 2. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×