Handbolti

Flensburg fór illa með strákana hans Dags

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Það var páskadoði yfir strákunum hans Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin þegar liðið steinlá í dag á móti SG Flensburg-Handewitt í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Flensburg vann leikinn með ellefu marka mun, 27-16.

Füchse Berlin var búið að vinna fjóra heimaleiki í röð í deildinni og skoraði yfir 30 mörk í þeim öllum. Dagur átti hinsvegar enga ása upp í erminni þegar leikur Refanna hrundi í seinni hálfleiknum.

Flensburg vann seinni hálfleikinn 15-4 þar sem ekkert gekk upp hjá Refunum. Ólafur Gústafsson skoraði eitt mark fyrir Flensburg en danski hornamaðurinn Anders Eggert var markahæstur með sjö mörk. Steffen Weinhold skoraði sex mörk. Johannes Sellin var markahæstur hjá Füchse með sex mörk.

Holger Glandorf skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og kom Flensburg þá í 12-10 fyrir hálfleik. Flensburg skoraði síðan þrjú fyrstu mörk seinni hálfleiks og leit ekki til baka eftir það.

Flensburg-Handewitt er aðeins tveimur stigum á eftir Rhein-Neckar Löwen (2. sæti) og á nú einn leik inni á Kiel sem er á toppnum með sex stigum meira en Flensburg. Füchse Berlin átti möguleika á að taka þriðja sætið af Flensburg en mistókst það herfilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×