Handbolti

Hamburg fyrsta liðið inn í 8 liða úrslit Meistaradeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Þýska liðið HSV Hamburg varð í kvöld fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta. HSV Hamburg komst áfram þrátt fyrir þriggja marka tap á heimavelli á móti slóvenska liðinu Celje Pivovarna Lasko, 28-31.

HSV Hamburg var í frábærri stöðu fyrir leikinn eftir níu marka sigur, 29 – 38, í leiknum í Slóveníu sem fór fram fyrir fimm dögum. HSV Hamburg komst því áfram samanlagt 66-60.

Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson dæmdu þennan leik og hafa oft dæmt betur en komust engu að síður ágætlega frá þessu verkefni. Seinni hálfleikurinn var mun betri en sá fyrri.

HSV Hamburg komst fimm mörkum yfir í fyrri hálfleik (12-7) en var bara með eins marks forskot í hálfleik, 13-12. Celje náði frumkvæðinu í seinni hálfleik en það var ekki nóg að ná fjögurra marka forskoti á lokamínútunum.

Króatinn Domagoj Duvnjak skoraði lokamark leiksins og því munaði þremur mörkum á liðunum í lokin. Duvnjak var markahæstur hjá HSV með sjö mörk en þeir Michael Kraus og Blazenko Lacković skoruðu báðir 4 mörk.

Borut Mackovsek, 21 árs slóvensk stórskytta, skoraði 13 mörk í fyrri leiknum en lét sér nægja að skora "bara" 7 mörk í kvöld. Hann var því með 20 mörk í leikjunum tveimur en það dugði þó skammt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×