Handbolti

Ólafur Bjarki á leið til Lemgo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Bjarki Ragnarsson.
Ólafur Bjarki Ragnarsson. Mynd/Vilhelm
Ólafur Bjarki Ragnarsson, leikstjórnandi þýska b-deildarliðsins Emsdetten og íslenska landsliðsins, er á leiðinni í þýsku úrvalsdeildina á næsta tímabili því vefsíðan handbolti.org hefur heimildir fyrir því að Ólafur Bjarki sé búinn að gera samkomulag um að spila með Lemgo á næstu leiktíð.

Ólafur Bjarki varð Íslandsmeistari með HK á síðasta tímabili og er á sínu fyrsta tímabili með Emsdetten-liðinu en hann hefur reyndar verið talsvert meiddur á þessu tímabili og missti meðal af HM á Spáni með íslenska landsliðinu.

Ólafur Bjarki gerði bara eins árs samning við Emsdetten og samkvæmt frétt handbolti.org skrifar hann annaðhvort undir eins eða tveggja ára samning á næstu dögum.

Ólafur Bjarki verður ekki fyrsti íslenski leikmaðurinn hjá Lemgo en með liðinu hafa meðal annars spilað Sigurður Valur Sveinsson, Logi Geirsson, Vignir Svavarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×