Handbolti

Þórir skoraði þrjú mörk í tapi í Ungverjalandi

Roland Mikler.
Roland Mikler.
Þórir Ólafsson og félagar í pólska liðinu Kielce töpuðu, 26-25, fyrir ungverska liðinu Pick Szeged í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Heimamenn leiddu nánast allan leikinn en gekk illa að hrista gestina af sér. Munurinn eitt mark í hálfleik, 15-14.

Roland Mikler, markvörður Szeged, datt í mikið stuð í síðari hálfleik og með hann fremstan í flokki komst Szeged fjórum mörkum yfir, 26-22. Það var ekki að hjálpa Kielce að vera nánast alltaf manni færri í síðari hálfleik.

Heimamenn fóru aftur á móti algjörlega á taugum á lokamínútunum. Köstuðu boltanum frá sér hvað eftir annað og Kielce gekk á lagið, skoraði þrjú síðustu mörkin og er í ágætum málum fyrir seinni leikinn sem fram fer á þeirra heimavelli.

Þórir skoraði þrjú mörk fyrir Kielce í leiknum. Bartlomiej Tomczak og Rastko Stojkovic markahæstir í liði Kielce með fjögur mörk. Markvarslan hjá liðinu var í molum allan leikinn en þeir Szmal og Losert vörðu samtals níu skot í leiknum.

Roland Mikler varði 19 skot í marki Szeged og Rajko Prodanovic var markahæstur þeirra með sex mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×