Handbolti

Jafnt hjá Björgvini og Gunnari Steini í EHF-bikarnum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd:Nordic Photos / Getty
Magdeburg og Nantes skildu jöfn 26-26 í EHF-bikarnum í handbolta í dag. Björgvin Páll Gústavsson ver mark Madeburg og Gunnar Steinn Jónsson stjórnar spili Nantes.

Nantes var þremur mörkum yfir í hálfleik 17-14 en Magdeburg lék frábæra vörn í seinni hálfleik og náði að jafna metin.

Björgvin Páll lék lítið í marki Magdeburg. Hann kom einu sinni inn á til að freista þess að verja víti sem tókst ekki.

Gunnar Steinn átti aftur á móti góðan leik fyrir Nantes og stjórnaði spilinu mjög vel með heimsmeistara sitthvoru megin við sig, Alberto Entrerrios og Jorge Maqueda.

Liðin leika í D-riðli og dugði stigið Magdeburg til að tryggja sér sæti í 8 liða úrslitum en Nantes þarf einn sigur úr tveimur síðustu leikjunum til að tryggja sitt sæti þar.

Magdeburg er með 7 stig í fjórum leikjum og Nantes 5. Á eftir þeim koma Besiktas og Stiinta Municipal Dedeman Bacau með 2 stig hvort lið.

Gunnar Steinn skoraði 2 mörk fyrir Nantes en Rivera Folch var markahæstur liðsins með 7 mörk.

Stefan Kneer og Robert Weber skoruðu 6 mörk hvor fyrir Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×