Handbolti

Aron: Fagna hverju skoti sem ég næ að verja

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Aron Rafn Eðvarsson varði alls 13 skot og þar af 2 vítaköst í 38-22 sigri Íslands gegn Síle í dag.
Aron Rafn Eðvarsson varði alls 13 skot og þar af 2 vítaköst í 38-22 sigri Íslands gegn Síle í dag. Mynd / Vilhelm
„Ég fagnaði hverju skoti sem ég náði að verja og þannig á það að vera. Ég fann að spennustigið var betra í þessum leik en gegn Rússum. Í þeim leik leið mér eins og skólastrák sem gæti ekki varið skot, þetta var mun betra í dag gegn Síle," sagði Aron Rafn Eðvarsson markvörður íslenska landsliðsins eftir 38-22 sigur liðsins á HM í dag. Aron lék í rúmlega 35 mínútur og varði hann alls 13 skot og þar af tvö vítaköst.

„Sjálfstraustið var mun betra, ég varði tvö víti og ég hefði átt að verja það þriðja. En Síle er ekki sterkasta lið í heimi en það þarf að vinna þessa leiki líka. Það er ástæða fyrir því að þessi lið eru á HM og það geta allir eitthvað í handbolta sem eru á þessu móti."

Aron segir að þjálfarateymi Íslands hafi farið vel yfir markvörsluna gegn Rússum og hvað hafi farið úrskeiðis. „Þetta var aðallega bara í hausnum á mér, stilla spennustigið og koma með rétt hugarfar í leikinn. Ég er að læra eins og allir leikmenn og vonandi tekst mér að finna réttu aðferðina. Það er mikil samkeppni um að spila en þrátt fyrir það erum við Björgvin Gústavsson að vinna saman alla daga. Við erum að sjálfsögðu ekkert sáttir við að byrja á bekknum en þjálfarinn ræður og maður leggur sitt að mörkum til að liðinu gangi vel – hvort sem maður er inni á vellinum eða á varamannabekknum," sagði Aron Rafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×