Handbolti

Pólverjar fengu bara fjórtán mörk á sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Pólverjar áttu ekki í miklum vandræðum með Sádí-Arabíu á HM í handbolta í kvöld en pólska liðið vann leikinn 28-14 og hefur þar með fullt hús í C-riðli eftir tvær fyrstu umferðirnar.

Sádí-Arabar náðu aðeins að skora fjórtán mörk í leiknum en sem dæmi voru þeir með 15 mörk í fyrri hálfleik í fyrsta leik sínum þar sem þeir töpuðu fyrir Slóvenum 22-32.

Robert Orzechowski og Michal Bartczak voru markahæstir hjá Pólverjum með fimm mörk hvor en Michal Kubisztal skoraði fjögur mörk. Bartlomiej Jaszka var hinsvegar valinn besti maður pólska liðsins.

Marcin Wichary, annar markvörður Pólverja, varði 15 af 23 skotum (65 prósent) sem komu á hann en hann lokaði markinu í seinni hálfleik. Slawomir Szmal varði 8 af 14 skotum í fyrri hálfleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×