Handbolti

Danir unnu Síle með 19 marka mun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Danir áttu ekki í miklum vandræðum með Síle í lokaleik okkar riðils á HM í handbolta í kvöld en danska liðið vann leikinn að lokum með 19 marka mun, 43-24, þrátt fyrir að hvíla lykilmenn eins og Mikkel Hansen og Niklas Landin.

Danir gátu líka dreift álaginu á leikmannahóp sinn og ættu því að geta mætt ferskir í leikinn á móti Íslendingum á morgun. Danskir fjölmiðlamenn töluðu um það fyrir leikinn að Danir fengju tveggja daga hvíld fyrir leikinn á móti Íslandi því mótstaðan frá Síle yrði engin. Svo varð líka raunin.

Danir voru reyndar bara með fjögurra marka forskot í hálfleik, 17-13, en unnu seinni hálfleikinn síðan 26-11. Anders Eggert skoraði 9 mörk fyrir Dana og Hans Lindberg var með fimm mörk. Tólf Danir skoruðu í leiknum og ellefu þeirra skoruðu tvö mörk eða meira. Rodrigo Salinas skoraði 10 mörk fyrir Síle.

Danir eru einir á toppi B-riðils með fullt hús eftir þrjá leiki en í næstu sætum koma Íslendingar, Rússar og Makedóníumenn með fjögur stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×