Innlent

Matthías Máni játaði þjófnað á flóttanum

Stígur Helgason skrifar
Matthías Máni stal sér skáldsögu á flóttanum en ekki kemur fram í ákærunni hver sú saga var.
Matthías Máni stal sér skáldsögu á flóttanum en ekki kemur fram í ákærunni hver sú saga var.

Matthías Máni Erlingsson, refsifangi sem strauk úr fangelsinu á Litla-Hrauni í desember í fyrra, játaði í Héraðsdómi Suðurlands í gær að hafa á flóttanum brotist inn í sumarbústaði og vélageymslu og stolið þar alls kyns hlutum. Þetta staðfestir Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi Matthíasar, í samtali við Vísi.



Matthías strauk af Litla-Hrauni 17. desember í fyrra og kom ekki í leitirnar fyrr en aðfaranótt aðfangadags, þegar hann gaf sig fram á bænum Ásólfsstöðum í Þjórsárdal, þar sem ábúendur tóku á móti honum og höfðu samband við lögreglu.



Hann var síðar ákærður fyrir að hafa á leið sinni þangað brotist inn í þrjá sumarbústaði og eina vélageymslu og stolið þaðan fatnaði, kuldagalla, kuldaskóm, úlpu og ullarsokkum, matvælum, skáldsögu, vasaljósi, snæri, kíki, bakpoka, kaffibrúsa auk ýmissa vopna; haglabyssu, riffli og öxi. Hann hafðist við í bústöðunum í mislangan tíma og stal auk þess fjórhjóli úr vélageymslunni sem hann ók á um Árnessýsluna þvera og endilanga í þessari viku. Hjólið skildi hann eftir bensínlaust í Hrunamannahreppi.



Guðmundur segir að Matthías hafi gengist við þessu öllu en ákæruvaldið hafi hins vegar ekki gert kröfu um sérstaka refsingu fyrir brotin. Matthías afplánar núna fimm ára fangelsisdóm fyrir tilraun til manndráps, auk þess sem hann hlaut nýverið átta mánaða dóm fyrir árás á fangavörð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×