Handbolti

Füchse Berlin missti annað sætið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur Sigurðsson er þjálfari Füchse Berlin.
Dagur Sigurðsson er þjálfari Füchse Berlin. Nordic Photos / Getty Images
Flensburg komst upp í annað sæti þýsku úrvalsedeildarinnar í dag með tveggja marka sigri á Füchse Berlin á heimavelli, 27-25. Lærisveinar Dags Sigurðssonar máttu játa sig sigraða eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik.

Füchse Berlin byrjaði mjög vel í leiknum og hafði mikla yfirburði framan af. Alexander Petersson skoraði eitt mark gegn sínu gömlu félögum í dag en hann kom til Berlínar frá Flensburg fyrir tveimur árum.

Eftir slaka byrjun vöknuðu heimamenn til lífsins í seinni hálfleik og náðu að saxa á forystu gestanna, jafnt og þétt. Þeir komust svo yfir, 24-23, þegar átta mínútur voru eftir. Svíinn Mattias Andersson varði nokkur mikilvæg skot á þessum kafla í marki Flensburg.

Iker Romero fór svo illa að ráði sínu þegar hann skaut yfir úr vítakasti tæpum fimm mínútum fyrir leikslok. Flensburg spilaði öfluga vörn á síðustu mínútum leiksins og tryggðu sér sigurinn með því að skora næstu tvö mörk í leiknum. Füchse Berlin skoraði lokamark leiksins af vítalínunni en það mark kom of seint.

Flensburg er nú með 45 stig eftir 28 leiki en Füchse Berlin er með 44 stig. Hamburg er í fjórða sætinu með 41 stig en á leik til góða. Kiel er sem fyrr á toppnum með fullt hús stiga eftir 27 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×