Handbolti

Hamburg saumar að Degi og félögum | Góður sigur Löwen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen. Nordic Photos / Getty Images
Þrír leikir fóru fram nú síðdegis í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. Hamburg vann öruggan útisigur á Grosswallstadt og er nú einu stigi á eftir Füchse Berlin sem féll niður í þriðja sæti deildarinnar í dag.

Berlínarliðið tapaði þá fyrir Flensburg sem komst upp í annað sætið. Þrjú efstu liðin eru örugg með sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð og því útlit fyrir spennandi lokasprett á tímabilinu.

Sverre Andreas Jakobsson skoraði eitt mark fyrir Grosswallstadt í dag en sigur Hamburg var öruggur. Hinn íslenskættaði Hans Lindberg fór á kostum og skoraði fjórtán mörk fyrir Hamburg.

Rhein Neckar Löwen er í fimmta sæti deildarinnar með 39 stig, fjórum á eftir Hamburg. Liðið vann góðan heimasigur á Lübbecke, 30-24. Róbert Gunnarsson skoraði eitt mark en þjálfari Löwen er Guðmundur Guðmundsson.

Þá skoraði Rúnar Kárason fjögur mörk fyrir Bergischer HC sem tapaði naumlega fyrir Eintracht Hildesheim, 29-28, á heimavelli. Hildesheim var að vinna aðeins sinn annan leik í vetur en liðið er langneðst í deildinni. Bergischer er í fallsæti með fimmtán stig, fjórum stigum á eftir Hannover-Burgdorf sem er í næsta sæti fyrir ofan.

Tap Rúnars og félaga í dag gæti því reynst afar dýrkeypt þegar uppi verður staðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×