Handbolti

Guðjón Valur: Ætlum að skemmta okkur og öðrum í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Pjetur
Guðjón Valur Sigurðsson segir að strákarnir í handboltalandsliðinu ætli að njóta þess að spila fyrir troðfulla höll í kvöld. Íslenska karlalandsliðið mætir Finnum í Laugardalshöllinni klukkan 19.45 en þetta er síðasti undirbúningsleikur Strákanna okkar fyrir EM í Serbíu sem byrjar hjá íslenska liðinu á mánudaginn.

„Það er heiður að fá að spila fyrir framan troðfulla höll. Við höfum oft talað um það síðustu ár að við njótum okkur hvergi betur og þess vegna viljum við kveðja þjóðina með sóma. Þetta er líka síðasti alvöru dagurinn í okkar undirbúningi og við ætlum að skemmta sjálfum okkur og öðrum," sagði Guðjón Valur um leikinn í kvöld.

Guðjón Valur byrjaði árið á því að skora 24 mörk í fyrstu tveimur leikjunum en vildi ekki gera mikið úr frammistöðu sinni.

„Það skiptir rosalega litlu máli hverjir skora mörkin. Það var komið að mér í þessum leikjum og ég sem hornamaður er lítið án leikmannanna við hliðina á mér. Það þarf fleiri en eina hendi til þess að skora mörk. Ég varð oft fríi karlinn í þessum tveimur leikjum og það er ágætt að ég gat hjálpað liðinu. Ef hlutverki mitt er að skora ekkert mark og við vinnum þá er það líka alveg jafngott," sagði Guðjón Valur hógvær að vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×