Handbolti

Stelpurnar geta slegið Rússa úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Stella hefur ekki fundið sig á em til þessa en kemur beitt til leiks í kvöld.fréttablaðið/stefán
Stella hefur ekki fundið sig á em til þessa en kemur beitt til leiks í kvöld.fréttablaðið/stefán
„Við erum að reyna að hreinsa hugann og ætlum að koma brjálaðar í leikinn á morgun. Við þurfum að gleyma því sem er búið, koma ferskar til leiks og með hausinn hundrað prósent í lagi. Ég hef aðeins verið að svekkja mig á því hvernig er búið að ganga þannig að ég held að maður þurfi bara að byrja upp á nýtt," sagði Stella Sigurðardóttir um leikinn mikilvæga á móti Rússum á EM kvenna í handbolta í kvöld.

Íslenska liðið tryggir sér sæti í milliriðlum með sigri sem yrði þá sannarlega sögulegur því íslenska liðið hefur aldrei unnið leik á EM og ennfremur aldrei unnið Rússa.

„Það var mjög mikil bæting á okkar leik á móti Rúmeníu frá því í fyrsta leiknum og nú þurfum við bara að taka næsta skref. Við þurfum allar að eiga toppleik til þess að vinna Rússana. Þetta gæti orðið fyrsti sigurinn á EM og með honum gætum við komist í milliriðla. Það væri glæsilegur árangur ef það myndi takast. Við ætlum okkur það og höfum trúna í þetta verkefni. Við þurfum að gefa allt í þetta á morgun," sagði Stella.

Íslenska liðið tapaði stórt fyrir Rússlandi í sextán liða úrslitunum á HM í Brasilíu fyrir ári síðan.

„Við eigum harma að hefna og við hræðumst þær ekkert. Okkur gekk ágætlega á móti þeim og ef það er möguleiki á því að vinna Rússana þá er það núna. Þær eru ekkert búnar að vera að spila neitt frábærlega á þessu móti," sagði Stella og bætir við: „Það er ekki áhverjum degi sem maður fær tækifæri til að slá Rússa út úr EM og það væri glæsilegur árangur ef það myndi takast," sagði Stella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×