Bakþankar

Jól í skókassa

Rússnesk vinkona mín náði þeim merka árangri á dögunum að gera mig algjörlega kjaftstopp. Ég var stödd á fundi í Þýskalandi með henni, einni þýskri stelpu og enskum strák þegar umræða um jólin spratt upp. Eftir að við hin þrjú höfðum setið um stund og kvartað yfir öllu því sem þyrfti að gera fyrir jólin lét sú rússneska loks í sér heyra. „Ég öfunda ykkur svo af því að fá að halda jól.“

Ekki misskilja mig, ég elska jólin vandræðalega mikið, en á þessari stundu þegar við vorum að leggja niður alla vinnuna sem væri yfirvofandi á næstu mánuðum var umhugsunin um jólaundirbúninginn ekki á það bætandi.

Þessi orð hennar slökktu þó í okkur öllum. Þökk sé mikilli og náinni vinnu síðustu mánuði fannst okkur við vera farin að þekkjast heldur vel. Ég hafði meðal annars gert mikið grín af því hve þessi tiltekna stúlka minnti mig á örlítið yngri útgáfu af sjálfri mér. Þegar við vorum þarna saman komin, að vinna að sama verkefni og með sömu framtíðarsýnina gleymdist alveg að hafa í huga frá hversu ólíkum uppruna við kæmum, sérstaklega þá hún frá okkur hinum.

Eftir að við höfðum náð að melta þetta innlegg hennar í umræðuna vöknuðu upp gríðarmargar spurningar um hennar lifnaðarhætti. Hún svaraði þeim öllum með bros á vör og við fengum að kynnast menningunni úr pínulitla 612.000 manna bænum hennar ögn. Það var gaman!

Þegar heim var komið sat þetta samtal mikið í mér. Í tengslum við það fór ég að hugsa um verkefnið Jól í skókassa sem er eflaust mörgum kunnugt. Verkefnið er nú að fara af stað í níunda sinn og er lokafrestur til að skila inn kassa 10. nóvember.

Ég hef fengið að kynnast því í gegnum árin hversu gríðarlega mikil vinna liggur að baki verkefni á borð við Jól í skókassa. Ég hef líka fengið að kynnast því hvað margt smátt getur í alvörunni gert eitt stórt og það er einmitt það sem gerir vinnuna þess virði.

Ein systir mín fer yfirleitt alla leið og pakkar inn ógrynni af skókössum sem hún svo fyllir af gjöfum og skilar inn. Hópur fólks fer þá í gegnum kassana og flytur þá til Úkraínu þar sem munaðarlaus börn fá þá að gjöf. Mér hefur alltaf þótt þetta afskaplega fallegt verkefni, en eftir að hafa átt þetta samtal við rússnesku vinkonu mína varð tilgangur þess og mikilvægi einhvern veginn svo miklu raunverulegri fyrir mér.

Þetta árið ætla ég að búa til að minnsta kosti þrjá kassa handa börnunum í Úkraínu. Á meðan ætla ég hlusta á jólalög, syngja með og gleðjast yfir því að FÁ að halda jól.


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.