Bakþankar

Ég er bara svo upptekin

Tinna Rós Steinsdóttir skrifar
„Vissir þú að stór hluti fólks á elliheimilum fær aldrei neinn í heimsókn til sín," sagði afi minn við mig í barnaafmæli í sumar. „Já, hugsaðu þér," svaraði ég hneyksluð á meðan ég hrósaði sjálfri mér í huganum fyrir að vera betri afkomandi en það.

Fljótlega byrjaði ég þó að efast. Ég reyndi að rifja upp hvenær ég hafði síðast droppað í heimsókn til ömmu og afa að ástæðulausu en gat ómögulega munað hvenær það var, svo langt var síðan. Hugurinn hélt áfram að reika og mér leið eins og ég væri stödd í bíómynd þar sem samræður sem ég hafði átt við fólk helltust yfir mig (með viðeigandi dramatískri tónlist í forgrunni).

Ég mundi eftir samtali sem ég hafði átt við vinkonu mína stuttu áður þar sem hún hafði enn einu sinni rætt það við mig hvernig ég hefði aldrei tíma til að gera neitt og léti aldrei í mér heyra. Álíka samtal hafði ég átt við systur mína og í kjölfarið hélt snjóbolti minninganna áfram að bæta við sig fleiri samtölum. Öllum hafði ég svarað á sama hátt: „Þú veist alveg hvað þú skiptir mig miklu máli. Ég er bara svo rosalega upptekin."

Eftir þetta samtal við afa minn ákvað ég að nú skyldi ég taka mig á. Viku síðar fór ég í heimsókn til ömmu og afa. Þar sat ég í dágóða stund og borðaði heimatilbúna rækjusalatið þeirra (uppáhalds!) og spjallaði við þau í rólegheitunum á meðan amma stoppaði í sokkabuxurnar mínar af mikilli list. Hún hafði tekið eftir tánni sem stakkst út. Næst keyrði ég til mömmu og pabba. Bæði fylltust þau undrun yfir því að ég væri mætt á þröskuldinn og biðu líklega alla heimsóknina eftir að heyra ástæðuna að baki henni. Hún var engin, nema þá að eiga dásemdarkvöld umvafin þeim sem ég elska – og svo sannarlega átti ég það.

Ég á ótrúlega mikið af frábæru fólki allt í kringum mig en alltof oft tek ég því sem sjálfsögðum hlut. Það er nauðsynlegt að rækta sambandið við fólkið sitt – og það er bæði skemmtilegt og gefandi í leiðinni.

„Það liggur enginn banaleguna og óskar þess að hafa eytt meiri hluta ævi sinnar í vinnunni," var önnur gullin setning sem afi minn vitur lét falla í ofangreindu samtali okkar. Margir meta verðleika sína eftir því hversu duglegir þeir eru að gefa af sér í vinnu eða í sjálfboðastörf. Ég þekki þá tilfinningu vel. En eru það þeir staðir sem á að gefa hvað mest í? Þegar ég dey, vil ég að í minningargreinunum standi: „Tinna Rós Steinsdóttir, afburðastarfskraftur og dugnaðarforkur" eða „Tinna Rós Steinsdóttir, yndisleg manneskja og vinur"? Ég held ég velji það seinna.






×