Bakþankar

Draumar sem rætast?

séra Sigurður Árni Þórðarson skrifar
Eitt hundrað og sjötíu augu horfðu dreymandi. Spurningar hljómuðu: Hvernig viltu að líf þitt verði? Hvað langar þig til að framtíðin færi þér? Hvernig nám viltu stunda? Þú mátt velja þér fimm atriði sem þú óskar að rætist í lífi þínu.

Hópur fermingarungmenna er þessa dagana á sumarnámskeiði í Neskirkju. Þau eru gagnrýnin, ærleg og óhrædd að ræða um gildi, Biblíutúlkun, samband trúar og vísinda, hlutverk Jesú og sögu hans, um skírn, altarisgöngu, ást, vonsku – já allt, sem varðar líf manna og lífslán.

Síðasta fimmtudag fór ég með þeim í kirkjugarðinn við Suðurgötu í Reykjavík, Hólavallagarð. Garðurinn er friðarhöfn kynslóða, en líka sýnisstaður handverks nítjándu og tuttugustu aldar og safnstaður listaverka og einnig trjáræktarsögu höfuðborgarinnar. Mörg minningarmarkanna eru merkileg og á legsteini Ólafar frá Hlöðum er minnt á, að tárin eru mál gleði og sorgar. Fermingarungmenni eru sprelllifandi fólk vonanna. Flest þeirra eiga skyldmenni grafin í þessum garði. Unga fólkinu finnst einkennilegt að hugsa um að hin látnu voru jafn lífsglöð og þau sjálf, báru jafn mikið líf í brjósti og þau sem ganga stíga nútíðar. Í kirkjugarðinum var þetta nútímafólk sent í eingöngu, þau áttu að vera út af fyrir sig og skrifa eigin drauma um framtíðina. Hvað langar þig til að verði?

Á draumablöðunum voru vonarmálin skrifuð. Sum dreymir um sigra í íþróttum og verða t.d. atvinnumenn í fótbolta. Önnur vilja gjarnan læra erlendis. Mörg vilja eignast stór hús og falleg heimili. Um tíu prósent fermingarungmenna vilja verða rík. Þetta árið vildu mörg verða lögfræðingar og læknar. Óvenjumörg vildu verða stjörnukokkar og hönnuðir. Allmörg stefndu á störf í viðskiptalífinu eða stofna eigin fyrirtæki. Mörg dreymir um að eignast hunda eða hesta. Þeim er líka umhugað um heilsu ástvina og biðja um að sleppa sjálf við áföll, krabbamein og slys. En hvað skiptir þau mestu máli, er þeim hamingjumál? Fjórðungur óskar eftir góðri menntun. Svipaður fjöldi óskar sér góðrar fjölskyldu. Og sami fjöldi talar um ósk um góðan maka. Þetta eru óskir um gott líf.

Í gær lögðum við draumablöðin, vonir og bænir á altarið í kirkjunni og báðum fyrir þeim. Ég trúi að Guð heyri bænir um gott líf og verð bjartsýnn á framtíðina þegar ég hitti fermingarungmenni. Unga Ísland stefnir á lífsleikni og hamingju. Kirkjan stendur með lífinu og Guð lætur drauma rætast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×