Handbolti

Guðmundur: Óli hefur ekki verið svona góður í tíu ár

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson.
Guðmundur Guðmundsson hrósar landsliðsfyrirliðanum Ólafi Stefánssyni í hástert. Ólafur er í ótrúlegu formi og skoraði tíu mörk í ellefu skotum gegn Túnis í gær. Hreiðar Levý Guðmundsson sneri þá töpuðum leik við með hreint út sagt magnaðri markvörslu á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Íslenska landsliðið hafnaði í þriðja sæti á æfingamóti í Frakklandi sem fram fór um helgina. Ísland tapaði gegn Spáni síðasta föstudag en vann svo Túnis, 31-27, í bronsleiknum í gær.

Markvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson kom til bjargar í leiknum í gær. Varði níu skot og fékk aðeins á sig tvö mörk. Þegar hann kom inn var Ísland fjórum mörkum undir í leiknum. Ólafur Stefánsson var einnig stórkostlegur með tíu mörk í ellefu skotum.

„Í heildina er ég nokkuð sáttur við leikinn þó svo það væru slakir kaflar inn á milli. Við leystum líka sóknarleikinn illa þegar Óli var tekinn úr umferð. Við höfum ekkert æft það en þurfum að fara að vinna i því," sagði Guðmundur sem var hæstánægður með að fá þennan leik enda mun Ísland mæta Túnis á Ólympíuleikunum í London.

„Mér finnst varnarleikurinn á hárréttri leið. Erum fljótir á fótum og strategían að halda. Við fáum of mörg hraðaupphlaup á okkur en löguðum það. Markvarslan var góð framan af en svo kom Hreiðar með stórkostlega markvörslu. Hann og vörnin voru frábær."

Björgvin varði ágætlega í leiknum en innkoma Hreiðars var eins og áður segir mögnuð.

„Hreiðar hefur verið að standa sig mjög vel á æfingum og hefur sýnt að hann er í góðu formi."

Guðjón Valur Sigurðsson hvíldi allan seinni hálfleikinn en hann er enn að jafna sig af meiðslum.

„Það munaði um minna. Guðjón er samt á réttri leið en við tökum enga áhættu með hann," sagði Guðmundur en Róbert Gunnarsson og Snorri Steinn Guðjónsson skiptust á að vera í horninu í seinni hálfleik.

„Snorri leysti það mjög vel og vonandi verður ekki þörf á því að leysa þetta. Við vonum að það verði í lagi með Guðjón í London."

Ingimundur virðist vera búinn að hrista af sér sín meiðsli og lék af krafti í gær. Aron Pálmarsson gat aftur á móti lítið leikið en hann er slæmur í hnénu.

„Við þurfum að fá meira frá honum. Það á að skoða hans mál betur er við komum heim. Hann kennir sér meins í hnénu."

Guðmundur hrósaði fyrirliðanum Ólafi Stefánssyni sérstaklega en hann var frábær í leiknum og virkar í ótrúlega góðu formi.

„Ég hef ekki séð Óla svona góðan síðan árið 2002. Hann var stórkostlegur og er í ótrúlegu formi," sagði þjálfarinn en hann segir liðið vera á réttri leið í undirbúningi sínum fyrir Ólympíuleikana í London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×