Handbolti

Þjálfarinn er ekkert smeykur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpurnar fagna hér 22-21 sigri á Svartfjallalandi í Brasilíu í desember.
Íslensku stelpurnar fagna hér 22-21 sigri á Svartfjallalandi í Brasilíu í desember. Mynd/Pjetur
Íslenska kvennalandsliðið lenti í erfiðum austantjaldsriðli í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fer fram í Serbíu frá 4. til 16. desember. Ísland er í riðli með Rúmeníu, Rússlandi, Svartfjallalandi og fer riðill stelpnanna fram í Vrsac eða sama stað og íslenska karlaliðið spilaði á EM í janúar.

Með þremur toppþjóðum„Þetta er hrikalega erfiður riðill, það verður að segjast eins og er því við lendum í riðli með þremur algerum toppþjóðum," sagði Rakel Dögg Bragadóttir, sem var fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins áður, en sleit krossband skömmu fyrir HM í Brasilíu í lok síðasta árs.

„Þetta er hörkuriðill og gríðarlega sterkar þjóðir. Það er ótrúlegt að við spiluðum við bæði Rússa og Svartfjallaland á síðustu tveimur stórmótum. Það er furðulegt að við lendum alltaf á móti þeim," segir Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari og Rakel var líka alveg til í að mæta „nýjum" þjóðum. „Það eina sem er kannski fúlt er að vera að lenda alltaf á móti sömu þjóðunum því það væri gaman að fá að spila við hinar þjóðirnar líka," sagði Rakel í léttum tón.

Þetta er þriðja stórmót íslensku stelpnanna í röð en þær voru einnig með á EM 2010 og á HM 2011 sem fram fór í Brasilíu. Íslenska kvennalandsliðið ætti vera farið að þekkja lið Svartfjallalands vel því liðið hefur verið með Svartfellingum í riðli á öllum þremur stórumótum sínum.

Bara rétt á eftir þeim bestu„Þetta verður hrikalega erfitt og fyrir fram spá spekingar okkur ekki mörgum sigrum en svo framarlega sem við höfum trú á þessu þá er margt sem getur gerst. Við sýndum það alveg síðast þegar við komum vel á óvart í Brasilíu. Við erum bara rétt á eftir þessum bestu þjóðum að mínu mati. Það telur mikið að hafa upplifað þetta á tveimur stórmótum í röð. Þetta er hrikalega erfiður riðill en við förum bjartsýnar á þetta mót með trú á okkur sjálfum," sagði Rakel Dögg en hún stefnir á að vera komin í gott form fyrir EM eftir að hafa slitið krossband rétt fyrir HM í Brasilíu.

Ágúst þekkir væntanlega mótherja vel og getur undirbúið liðið vel fyrir mótið. „Við þekkjum ágætlega inn á þessi lið og svo eru Svartfellingar og Rússar líka inni á Ólympíuleikunum í haust. Það á að vera auðvelt að fá efni með þeim og vonandi verðum við í fínu standi í desember," sagði Ágúst og bætti við: „Það hefði verið gaman að spila við Dani en svona er þetta. Þetta eru þjóðir sem spila 6:0 varnarleik og svolítið þungan handbolta en það hentar kvennalandsliðinu ágætlega að spila á móti þessum þjóðum. Ég er ekkert smeykur en ég er klár á því að þetta verður strembið," segir Ágúst.

Landi hans Þórir Hergeirsson, þjálfari heims- og Evrópumeistara Noregs, gat aftur á móti verið kátur með sinn riðil en Norðmenn eru með Úkraínu, Serbíu og Tékklandi. „Norðmenn fengu langþægilegasta riðilinn og voru mjög heppnir með riðil," sagði Ágúst og Rakel er sammála. „Norðmennirnir fara auðveldlega í gegnum þann riðil," segir Rakel.

Þurfa að nýta tímann vel„Það hefði reyndar verið sama í hvaða riðil við hefðum farið í því það er alltaf mjög erfitt að komast upp úr svona riðli á EM. Leikmenn þurfa að nýta tímann vel fram að EM því það er enn langur tími í mótið. Ef leikmennirnir okkar mæta í sínu besta formi þá er engin spurning að við getum hugsanlega komið okkur upp úr riðlinum," sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×