Handbolti

Róbert farinn frá Löwen: Ég felldi ekki mörg tár

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Róbert og félagar í íslenska landsliðsinu mæta Hollendingum í undankeppni HM. Fyrri leikurinn fer fram í Laugardalshöll á sunnudaginn.fréttablaðið/vilhelm
Róbert og félagar í íslenska landsliðsinu mæta Hollendingum í undankeppni HM. Fyrri leikurinn fer fram í Laugardalshöll á sunnudaginn.fréttablaðið/vilhelm
Eftir mikla bekkjarasetu hjá Rhein Neckar-Löwen í Þýskalandi hefur Róbert Gunnarsson gengið til liðs við franska félagið Paris Handball. Minnstu munaði að Parísarliðið félli úr efstu deild en það ætlar sér stóra hluti næsta vetur.

„Liðið var tíu sekúndum frá því að falla. Þetta leit hræðilega út en hafðist sem betur fer," segir Róbert sem fylgdist með gangi mála í lokaumferð frönsku deildarinnar á netinu í síðustu viku. Parísarliðið tapaði sínum leik og því mátti Istres ekki vinna sigur á Ivry í lokaumferðinni. Annars félli Parísarliðið í næst efstu deild.

„Við getum þakkað þjálfara Ivry fyrir að hafa tekið byrjunarliðsmennina út af og sett varamennina inn á því þeir jöfnuðu leikinn," sagði Róbert en Ivry var tveimur mörkum undir þegar mínúta lifði leiks og hafði að engu að keppa. Engu að síður jöfnuðu sprækir varamenn metin og Róbert gat andað léttar.

„Við þurfum að splæsa á þá kampavíni," segir Róbert hæstánægður með frammistöðu varamanna Ivry.

Tveir fyrir einn tilboðAuk Róberts gekk landsliðsmaðurinn Ásgeir Örn Hallgrímsson til liðs við Parísarliðið og Róbert segir að það hafi ekki verið nein tilviljun.

„Ég sagði við þá að ég kæmi ekki nema Konni kóngur (Ásgeir Örn) kæmi og hann sagðist ekki koma nema þessi feiti kæmi. Þetta var tveir fyrir einn pakki," segir Róbert og nýtir tækifærið til að skjóta viðurnefni á liðsfélaga sinn og gera grín að sjálfum sér um leið.

Katar Sport Investment, sömu aðilar og tóku yfir knattspyrnufélagið Paris Saint-Germain, tryggðu sér um helgina 100 prósenta eignarhlut í handboltaliðinu. Reiknað er með því að nýju eigendurnir dæli fjármagni í handboltaliðið líkt og þeir hafa gert með PSG.

„Við vissum það svo sem þegar við skrifuðum undir í febrúar að til stæði að það kæmu inn sterkir aðilar. Við vissum reyndar ekki nákvæmlega hverjir það voru en það kom í ljós á sunnudaginn," segir Róbert og reiknar með því að Paris Handball taki upp nafnið PSG og allt verði undir sama hatti.

„Þetta er allt saman á sama svæðinu og ég held þeir ætli að byggja upp íþróttaveldi eins og eru á Íslandi. Eitt lið með margar íþróttagreinar," segir Róbert sem telur að liðið muni aðallega styrkja sig með frönskum leikmönnum.

„Það finnst mér mjög jákvætt, svipað og AG Kaupmannahöfn gerir. Byggja liðið á kjarna heimamanna og svo útlendingum í kring," segir Róbert en auk Íslendinganna hefur Serbinn Mladen Bojinovic gengið til liðs við félagið. Þá er hinn örvhenti Luc Abalo þrálátlega orðaður við Parísarliðið.

„Bojinovic hefur spilað lengi í Frakklandi svo hann telst varla sem útlendingur. Fyrir utan mig og Ásgeir Örn eru þetta bara Frakkar."

Margir færir þjálfarar hafa verið orðaðir við franska félagið. Róbert telur að það muni skýrast á allra næstu dögum hver taki við liðinu. Róbert hefur litlar skoðanir á þjálfaramálunum. Aðalatriðið sé að fá að spila.

„Ég vona að nýr þjálfari geti notað mig. Ég fagna nýju ævintýri og er virkilega spenntur eins og Konni að fara til Parísar. Við hlökkum til að spila, prófa eitthvað nýtt og nýjustu fregnir af félaginu skemma ekki fyrir," segir Róbert sem brosir í kampinn spurður hvort hann hefði kvatt Rhein Neckar-Löwen með söknuði eða ekki.

Róbert hefur mátt sætta sig við mikla bekkjarsetu í vetur enda hörð samkeppni við Norðmanninn Bjarte Myrhol. „Ég felldi ekki mörg tár," svaraði línumaðurinn og hló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×