Handbolti

Guðmundur: Ekki veikur hlekkur hjá Spánverjum

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Guðmundur Guðmundsson segir nýliðanum Rúnari Kárasyni til í leiknum á móti Ungverjum á sunnudaginn.
Guðmundur Guðmundsson segir nýliðanum Rúnari Kárasyni til í leiknum á móti Ungverjum á sunnudaginn. Mynd/Vilhelm
„Ég held að þetta sé besta liðið eins og staðan er í dag. Þeir eru taplausir og hafa sýnt ótrúlegan styrk. Það er ekki til veikur hlekkur í þessu liði. Hvorki í sókn, vörn né markvörslu. Við þurfum að eiga toppleik til þess að eiga möguleika," sagði landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson um andstæðing dagsins á EM, Spánverja.

Liðin mættust einnig á HM fyrir ári síðan og þá fór spænska liðið illa með strákana okkar.

„Við þurfum að gera miklu betur en þá. Við gerðum marga tæknifeila í þeim leik og þeim verður að fækka. Við verðum að vera klókir í sókninni. Ég veðja á að þeir byrji í 5/1 vörn gegn okkur. Það gerðu þeir í fyrra og við leystum það mjög illa."

Ástandið á hópnum er ekki nógu gott en fjórir leikmenn eru að glíma við meiðsli. Alexander Petersson, Aron Pálmarsson og Þórir Ólafsson hvíldu á æfingu í gær en Arnór Atlason æfði þó svo hann sé slappur.

„Ástandið hefur verið betra. Þeir höfðu gott af því að hvíla, strákarnir en Arnór er ótrúlegur og vildi æfa. Það er seigt í honum. Strákunum verður tjaslað saman en Alexander byrjar á bekknum. Hann getur vonandi hjálpað okkur samt," segir Guðmundur.

Það tekur gríðarlega á að taka þátt í stórmóti. Gildir það fyrir alla sem að liðinu koma enda unnið myrkranna á milli. Mátti sjá í gær að margir væru orðnir svolítið þreyttir.

„Þetta tekur á. Þegar maður sér sjálfan sig á hliðarlínunni þá hugsar maður að það sé ekki skrítið að maður sé þreyttur," segir Guðmundur og hlær við.

„Ég var nánast kominn inn í vörnina gegn Ungverjum. Ég hefði alveg getað slappað af undir lokin en var kominn í fíling."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×