Handbolti

Ólafur Bjarki og Rúnar: Mjög gaman að skora

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Rúnar Kárason skoraði glæsilegt mark eftir að hann kom inn á seint í leiknum í gær.
Rúnar Kárason skoraði glæsilegt mark eftir að hann kom inn á seint í leiknum í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
Kjúklingarnir í íslenska landsliðshópnum fengu nánast allir að spila í sigrinum glæsilega gegn Ungverjum í gær. Þeir Ólafur Bjarki Ragnarsson og Rúnar Kárason fengu nokkuð að spila og Ólafur Guðmundsson kom inn undir restina. Aðeins Aron Rafn Eðvarðsson fékk ekki tækifærið í dag.

Þetta var fyrsta stórmótsreynsla Rúnars en Ólafur Bjarki hafði komið inn í einni sókn fyrr í mótinu. Báðir skoruðu þeir sín fyrstu mörk á stórmóti og voru óragir og ákveðnir á vellinum.

„Ég kom svo fljótt inn og fékk engan tíma til að undirbúa mig. Þetta var eins og að koma inn í hvern annan leik. Eftir á að hyggja var þetta talsvert sérstakara. Það var gaman að leggja sitt af mörkum og þetta var frábær sigur liðsandans," sagði Rúnar hógvær en hann skaut næstum því höfuðið af markverðinum er hann skoraði með sínu öðru skoti. „Ég þurfti smá tíma til þess að hitna. Það var mjög gaman að sjá boltann í netinu."

Þegar Ólafur Bjarki skoraði þá lak boltinn í netið. Inn fór hann og það skipti öllu máli. „Það mátti nú ekki tæpara standa og ljúft að sjá hann í netinu," sagði Ólafur Bjarki en hann klúðraði síðan hraðaupphlaupi. Skaut himinhátt yfir.

„Ég ætlaði svoleiðis að smyrja hann í samskeytin en boltinn flaug úr hendinni á mér. Þetta var líkara snertimarkssendingu í amerískum fótbolta en skoti úr hraðaupphlaupi," sagði HK-ingurinn léttur. „Þetta var rosalega gaman."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×