Handbolti

Endurtekið efni gegn Króötum

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Alexander Petersson reynir hér að komast framhjá varnarmanni Króata í leiknum í gærkvöldi.
Alexander Petersson reynir hér að komast framhjá varnarmanni Króata í leiknum í gærkvöldi. Mynd/Vilhelm
Rétt eins og á HM í Svíþjóð í fyrra varð Ísland að lúta í lægra haldi gegn Króatíu þó svo að strákarnir hafi leitt nánast allan leikinn. Engin uppskera eftir fína frammistöðu. Strákarnir héldu þó ekki haus undir lokin.

Fyrri hálfleikur var magnaður hjá íslenska liðinu. Strákarnir voru einbeittir, afslappaðir og yfirvegaðir í öllum sínum aðgerðum í sókninni. Spiluðu langar sóknir og ekkert óðagot. Sama taktík og Króatar hafa beitt svo lengi með góðum árangri.

Jafnræði var með liðunum framan ef en Ísland tók svo frumkvæðið. Strákarnir náðu mest þriggja marka forskoti í hálfleiknum, 13-10, en leiddu með einu, 15-14, þegar blásið var til leikhlés.

Mikil spenna og taugastríðið hélt áfram í síðari hálfleik. Íslenska liðið með frumkvæðið en Króatar önduðu ofan í hálsmálið á okkar mönnum. Munurinn var aldrei meiri en tvö mörk. Þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir komust Króatar yfir í fyrsta skipti síðan í upphafi leiksins, 28-29. Lokamínúturnar voru lélegar, slök skot tekin og grátlegt tap staðreynd.

Ef lokamínúturnar eru teknar út var vart veikan blett að finna í íslenska liðinu. Var ekki að sjá að íslenska liðið væri sá höfuðlausi her sem margir óttuðust að yrði staðreyndin með fjarveru Snorra Steins og Ólafs Stefánssonar.

Arnór Átlason bar af í íslenska liðinu, skoraði lagleg mörk, lagði upp og var ótrúlega útsjónarsamur í sínum aðgerðum. Guðjón Valur var traustur sem fyrr og skilaði einnig mörkum af vítalínunni þar sem hann er orðinn vítaskytta. Alexander er alltaf öflugur en á meira inni rétt eins og Aron Pálmarsson sem spilaði lengstum vel.

Næst á dagskrá eru Norðmenn og ef íslenska liðið leikur álíka vel þar á það góðan möguleika á sigri. Fall er vonandi fararheill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×