Handbolti

Ekki fenginn til að framkalla einhver kraftaverk

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Einar er kominn aftur í úrvalsdeildina. Hann er hér í leik með Flensburg gegn Ciudad Real.
Einar er kominn aftur í úrvalsdeildina. Hann er hér í leik með Flensburg gegn Ciudad Real. Mynd/Vilhelm
Það verður seint sagt að lukkan hafi leikið við örvhentu sleggjuna Einar Hólmgeirsson á atvinnumannaferlinum. Hann hefur glímt við þrálát meiðsli undanfarin ár og lék sinn síðasta handboltaleik fyrir ellefu mánuðum. Þá héldu allir að ballið væri búið hjá Einari.

Svo er nú aldeilis ekki því hann fær tækifæri út þessa leiktíð til þess að sanna sig hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Magdeburg, sem Björgvin Páll Gústavsson leikur með.

„Við verðum að sjá til hvernig þetta endar. Ég er í ágætu standi en það hefur ekkert reynt almennilega á það. Þeir hafa engu að tapa og ekki ég heldur og því látum við reyna á þetta," sagði Einar en hann skrifar í dag undir samning sem gildir til loka leiktíðar. Fínasta afmælisgjöf en Einar varð þrítugur í gær.

Aðalskytta Magdeburg er meidd og verður frá fram að jólum. Sá er leysir hann af hefur átt í meiðslum og því vantaði Magdeburg mann.

„Eftir fyrstu æfinguna spurðu þeir hvort ég gæti spilað á laugardaginn. Ég hef lítið annað að gera þannig að ég var til," sagði Einar sem hefur verið að æfa með 3. deildarliði síðan í janúar.

Hann ætlaði að reyna að komast að hjá liði í janúar en varð að slá því á frest þar sem vinstra hnéð var skorið upp í október. Það var í fjórða skiptið sem hann er skorinn upp á því hné.

„Þjálfarinn veit hvernig ég er og að ég þarf örugglega mínar hvíldir. Ég er fenginn til að leysa hinn af. Ég á ekki að framkalla einhver kraftaverk hérna. Sleggjan er smá ryðguð en það þarf aðeins að pússa hana upp. Ég veit ekki alveg hvar ég stend og renni frekar blint í sjóinn."

Einar gerir sér grein fyrir því að ef vel gangi gætu opnast dyr fyrir hann í framhaldinu. Það á svo eftir að koma í ljós hvernig skrokkurinn heldur.

„Ef vel gengur má vel vera að þeir vilji framlengja fram að jólum. Maður veit það ekki. Þetta er tækifæri fyrir mig til þess að sanna að ég get enn spilað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×