Handbolti

Spánverjar sendu Rússana heim

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Spánn tryggði sér sigur í C-riðli með því að vinna Rússland með þriggja marka mun, 30-27, í lokaleik liðanna í riðlakeppninni á EM í handbolta í Serbíu í dag. Spánverjar töpuðu óvænt stigi á móti Ungverjum í leiknum á undan eftir að hafa unnið Heims- og Evrópumeistara Frakka i fyrsta leik.

Roberto García skoraði sex mörk fyrir Spánverja og þeir Cristian Ugalde og Joan Cañellas voru báðir með fimm mörk. Konstantin Igropulo skoraði átta mörk fyrir Rússa.

Tapið þýðir að Rússar eru úr leik á EM en bæði Frakkar og Ungverjar eru komnir áfram þrátt fyrir að þeir eigi eftir að mætast á eftir. Leikurinn er því í raun fyrsti leikurinn í milliriðli fyrir þessi lið því stigin úr honum fylgja liðunum í milliriðilinn.

Rússar komust í 5-3 og 7-5 á fyrstu fimmtán mínútum leiksins en Spánverjar gerðu nánast út um leikinn með því að skora sjö mörk í röð og komast í 14-8. Spánverjar voru síðan 17-11 yfir í hálfleik.

Spánverjar náðu sjö marka forskoti í upphafi seinni hálfleiksins en Rússar gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn niður í tvö mörk, 21-19. Þá gáfu Spánverjar aftur í og tryggðu sér öruggan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×