Handbolti

Umfjöllun: Füchse Berlin - Kiel 24-25 | Hetjuleg barátta Berlínarliðsins ekki nóg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Köln skrifar
Nordic Photos / Getty
Kiel er komið áfram í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu eftir nauman sigur á Füchse Berlin, 25-24, í æsispennandi viðureign.

Alexander Petersson átti möguleika á að jafna metin með síðasta skoti leiksins en það fór af varnarmanni og inn. Hann átti samt stórleik, sem og Petr Stochl í markinu, en það dugði ekki til.

Filip Jicha var stórbrotinn hjá Kiel sem og Thierry Omeyer í markinu. Þeir sáu um að skila Kiel í úrslitaleikinn, fyrst og fremst.

Kiel byrjaði leikinn miklu betur og komust í fimm marka forystu, 8-3, eftir átta mínútna leik. Alfreð stillti upp í gríðarsterka 5-1 vörn sem Füchse Berlin átti erfitt með að vinna bug á. Thierry Omeyer var þar að auki í essinu sínu og varði til að mynda tvö fyrstu víti Berlínarliðsins.

Alexander Petersson var í byrjunarliði Füchse Berlin og var nokkrar mínútur að koma sér í takt við leikinn. Hann lét reka sig út af snemma leiks sem hans menn máttu ekki við.

Silvio Heinevetter byrjaði í marki Füchse Berlin og þrátt fyrir að hann varði víti á upphafsmínútunum ákvað Dagur að kippa honum af velli og setja Petr Stochl inn á. Það átti eftir að borga sig því Stochl var funheitur og varði gríðarvel. Það lagði grunninn að endurkomu Berlínarliðsins sem náði að minnka muninn í þrjú mörk fyrir lok fyrri hálfleiks, 15-12.

Alexander náði, eins og allt lið Füchse Berlin, að koma sér í gang eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og skoraði hann tvö mörk. Aron Pálmarsson fékk einnig nokkrar mínútur í liði Kiel.

Kiel var lengst af skrefi framar í seinni hálfleik en Berlínarliðið var aldrei langt undan. Alexander hélt áfram upptekknum hætti og sá til þess, ásamt Stochl, að halda sínum mönnum á floti.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar eru þekktir fyrir þrautsegju, eins og sýndi sig í fjórðungsúrslitum keppninnar, og þeir héldu sínu gegn þessu sterka liði Kiel. Þegar um átta mínútur voru eftir náðu Berlín að jafna metin, 23-23, og allt í járnum á lokamínútum leiksins. Alexander skoraði mark í endurkomunni og lagði upp annað.

Füchse Berlin fékk tvö tækifæri til að komast yfir en nýtti þau ekki. Kiel endurheimti forystuna með marki Jicha af vítalínunni en Alexander svaraði með sínu sjöunda marki í leiknum þegar rúmar tvær mínútur voru eftir.

Hinn ótrúlegi Jicha kom Kiel aftur yfir með langskoti þegar rúm mínúta var eftir. Það var hans ellefta mark í leiknum. Thierry Omeyer varði svo frá Johannes Sellin í horninu og Kiel komst í sókn þegar mínúta var eftir af leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×