Handbolti

Tvö lið af fjórum nýliðar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Köln skrifar
Alexander Petersson verður í eldlínunni með Berlin í dag.
Alexander Petersson verður í eldlínunni með Berlin í dag.
Füchse Berlin og AG frá Kaupmannahöfn eru bæði komin áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu en liðin eiga það sameiginlegt að vera á sínu fyrsta tímabili í keppni þeirra bestu.

AG var sem kunnugt er stofnað af Jesper Nielsen árið 2010 en félagið varð Danmerkurmeistari á sínu fyrsta tímabili í fyrra og vann sér því þátttökurétt í Meistaradeildinni.

Füchse Berlin, lið Dags Sigurðssonar, kom öllum að óvörum með því að ná þriðja sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og tryggja þar með félaginu sæti í Meistaradeildinni í fyrsta sinn í sex ára sögu félagsins.

Füchse Berlin mætir nýkrýndum Þýskalandsmeisturum Kiel í fyrri undanúrslitaleik dagsins í dag og AG mætir svo Atletico Madrid klukkan 16.00. Sigurvegarar leikjanna spila svo til úrslita á morgun en allir leikirnir fara fram í Köln í Þýskalandi.

Iker Romero, leikstjórnandi Füchse Berlin, segir að gott gengi liðsins hafi komið mörgum á óvart. „Það er eins og að við séum á leið í partí sem enginn hélt að við værum boðnir í,“ sagði Romero við þýska fjölmiðla.

Hann er þó þaulreyndur sjálfur og hefur spilað með Barcelona í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar, Final Four, í öll þau þrjú skipti sem hún hefur farið fram. Romero vann titilinn með Barcelona í fyrra en AG gerði sér einmitt lítið fyrir og sló Börsunga úr leik í fjórðungsúrslitum keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×