Handbolti

Ólafur: Kominn í mitt besta form

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Það er mjög sérstakt að vera kominn aftur til Kölnar," sagði Ólafur Stefánsson á blaðamannafundi fyrir úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í Köln í gær.

Ólafur hefur unnið Meistaradeildina fjórum sinnum með tveimur félögum - Ciudad Real og Magdeburg. Hann var frá vegna meiðsla í upphafi tímabilsins og missti af þeim sökum af EM í Serbíu í janúar.

„En sem betur fer er ég aftur kominn í mitt besta form nú þegar mest á reynir," sagði hann.

Ólafur leikur sem kunnugt er með danska liðinu AG en liðið hefur slegið í gegn Meistaradeildinni í vetur. „Við erum bara 120 mínútur frá titlinum. En þetta verða mjög langar 120 mínútur og mjög brött brekka."

Ólafur mætir sínu gömlu liðsfélögum í Atletico Madrid í undanúrslitum en liðið hét áður Ciudad Real. Ólafur lék með liðinu í sex ár og varð þrívegis Evrópumeistari með liðinu.

„Mér þykir það leitt að annað félagið muni ekki komast í úrslitin. Ef við vinnum verða tilfinningarnar mínar blendnar því ég átti frábær ár hjá Ciudad Real. En þetta snýst ekki um mig heldur liðið og félagið. Við höfum sett okkur háleit markmið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×