Handbolti

Dujshebaev áfram hjá Atletico: Vonast til að verða eins og Ferguson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Talant Dujshebaev faðmar Ólaf Stefánsson.
Talant Dujshebaev faðmar Ólaf Stefánsson. Mynd/AFP
Talant Dujshebaev, þjálfari spænska handboltaliðsins Atletico Madrid sem áður hét Ciudad Real, hefur engin áform um að hætta með liðið á næstu árum. Dujshebaev hefur verið orðaður við nokkrar þjálfarastöður að undanförnu og fjárhagsstaða Atletico er ekki alltof góð.

„Það eina sem ég vil segja á þessari stundu er að mín ósk er að verða áfram þjálfari Atlético. Vonandi get ég orðið að Ferguson þessa klúbbs með því að starfa hjá félaginu í meira en 20 ár," sagði Talant Dujshebaev við spænska blaðið Marca.

Talant Dujshebaev hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá þýska liðinu HSV Hamburg sem og hjá landsliði Katar en Katarmenn ætla sér stóra hluti á HM 2015 sem fer fram í Katar.

Dujshebaever 43 ára gamall og hefur verið þjálfari Atletico Madrid (BM Ciudad Real) frá 2005 en hann lék líka með liðinu frá 2001 til 2007.

Ciudad Real hefur unnið Meistaradeildina þrisvar sinnum undir hans stjórn en Ólafur Stefánsson var þá í öll þrjú skiptin í lykilhlutverki hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×