Handbolti

Stigalausir eins og Frakkar og Danir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Gunnarsson og félagar í íslenska landsliðinu mæta Ungverjum á morgun en ungverska liðið er taplaust á EM.
Róbert Gunnarsson og félagar í íslenska landsliðinu mæta Ungverjum á morgun en ungverska liðið er taplaust á EM. Mynd/Vilhelm
Íslenska landsliðið komst áfram í milliriðla á EM í handbolta í Serbíu þrátt fyrir tap á móti Slóvenum í gær og spilar sinn fyrsta leik í milliriðlinum á móti Ungverjum á morgun.

Króatar og Slóvenar hjálpuðu strákunum upp úr riðlinum, Króatar með því að vinna Norðmenn í lokaleik riðilsins og Slóvenar með því að gefa íslenska liðinu tvö mörk í lok leiksins í gær.

Fjögurra marka sigur Slóvena hefði komið Norðmönnum áfram en þá hefðu Slóvenar líka farið án stiga inn í milliriðilinn. Fréttablaðið hitti á Robert Hedin, þjálfara norska liðsins, í gær.

"Þeir fengu tækifæri til þess að komast áfram með tvö stig og þeir nýttu sér það. Þetta er kannski ekki mjög heiðarlegt en um þetta snýst leikurinn og ég skil það. Ég tel að það hafi verið rétt hjá þeim að gera þetta," sagði Hedin.

Íslenska liðið fer ekki með neitt stig með sér upp úr riðlinum en Heims-, Evrópu- og Ólympíumeistarar Frakka eru í sömu stöðu eftir óvænt tap á móti Ungverjum í gær. Danir eru líka án stiga þegar keppni í milliriðli eitt hefst í dag og það er óhætt að segja að það hafi verið nóg af óvæntum úrslitum í Serbíu.

Ungverjar hafa komið mjög á óvart í keppninni en þeir hafa ekki enn tapað leik. Ungverska liðið hafi gert jafntefli við Rússa og Spánverja áður en kom að leiknum við Frakka í gær.

Íslenska liðið spilar síðan við Spánverja í öðrum leik sínum á þriðjudaginn og mætir síðan Frökkum á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×