Handbolti

Sverre um varnarleikinn: Vantar traust á milli manna

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Sverre Jakobsson sést hér í vörninni á móti Slóveníu i gær.
Sverre Jakobsson sést hér í vörninni á móti Slóveníu i gær. Mynd/Vilhelm
Varnarjaxlinn Sverre Andreas Jakobsson var með böggum hildar eftir tapið gegn Slóvenum í gær. Sverre og félagar hans í vörninni hafa engan veginn fundið taktinn það sem af er EM.

„Við erum vel undirbúnir, erum með áætlun en við erum ekki með tengingu á milli manna og ekki með það traust sem þarf að vera á milli manna. Það er engin samvinna á milli varnar og markvörslu. Við erum ekki að hjálpa markvörðunum. Það er mikið óöryggi í varnarleiknum og vantar 15 til 20 prósent upp á það sem við erum að reyna að gera," sagði Sverre svekktur.

„Ég held að hausinn sé alveg rétt skrúfaður á menn. Mótlætið brýtur okkur, stemningin brýtur okkur líka en við erum að reyna. Þetta bara smellur ekki saman hjá okkur. Það er stanslaust mótlæti og við erum í vandræðum," segir Sverre en hann er eðlilega fúll með að fara stigalaus í milliriðil.

„Það verður ekkert auðvelt að rífa sig upp eftir þetta. Nú taka við gríðarlega erfiðir leikir. Þar verður allt að vinna en engu að tapa. Við þurfum líka að hafa meira gaman af þessu og finna okkar leik aftur. Við viljum ljúka þessari keppni á jákvæðum nótum og munum rífa okkur upp. Nú reynir á að við verðum að axla ábyrgð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×