Handbolti

Guðjón Valur: Komum okkur í þessa stöðu sjálfir

Henry Birgir Gunnarsson í Vrsac skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Mynd/Vilhelm
„Ég ætla að reyna að vanda orðavalið núna því ég vandaði það ekki í sjónvarpinu áðan," sagði Guðjón Valur Sigurðsson landsliðsfyrirliði eftir tapið gegn Slóveníu í gær. Það sauð á fyrirliðanum og skal engan undra miðað við frammistöðu liðsins.

„Mér er andskotans drullusama hvað við klúðrum af færum en ef við skorum 32 mörk þá skal það gjöra svo vel og duga til sigurs. Þetta fer að verða komið nóg. Það er orðið erfitt að kyngja því hvernig við missum menn í vörninni og fáum litla markvörslu," segir Guðjón en fá teikn voru á lofti fyrir mót um að varnarleikurinn yrði í ólagi.

„Mánuðurinn byrjaði vel í Danmörku á æfingamóti og þar var vörnin góð. Það er eitthvað óöryggi. Ég myndi aldrei saka nokkurn mann í þessu liði um að vilja ekki leggja sig fram. Það er einhver vírus kominn í menn sem gerir það að verkum að þeir eru óöruggir. Það vantar síðasta skrefið hjá okkur."

Íslenska liðið fer án stiga í milliriðilinn og það er öllu liðinu mikil vonbrigði.

„Svona er veruleikinn og lífið er stundum tík. Þetta er staða sem við komum okkur sjálfir í. Nú verðum við bara að taka þessari niðurstöðu af karlmennsku og gera það besta úr þeirri stöðu sem upp er komin. Það eru stórir hlutir framundan á þessu ári og nú verðum við að byrja að undirbúa okkur fyrir það. Það er samt ekkert búið og við ætlum að selja okkur dýrt í milliriðlinum. Vonandi náum við smá stíganda í okkar leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×