Handbolti

Harðjaxlinn Jensen segir að Norðmenn hefðu gert það nákvæmlega sama

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Johnny Jensen í leik með Noregi, til hægri.
Johnny Jensen í leik með Noregi, til hægri. Mynd/
Johnny Jensen, einn leikreyndasti landsliðsmaður Noregs í handbolta, telur að Slóvenar hafi ekki gert neitt rangt á lokamínútunum gegn Íslandi á Evrópumeistaramótinu í Serbíu. Slóvenar misstu boltann viljandi í tvígang á lokamínútunum til þess að Íslendingar gætu minnkað muninn í 2 mörk og þar með fóru Slóvenar með 2 stig í milliriðil en Norðmenn sátu eftir og komust ekki áfram.

„Við hefðum gert það nákvæmlega sama ef þessar aðstæður hefðu komið upp hjá okkur. Þannig er þetta bara. Að mínu mati léku þeir vel og unnu sannfærandi tveggja marka sigur. Það er bara bull að vera tala um svindl eða óíþróttamannslega framkomu. Svona hlutir hafa gerst áður, þetta er óskrifuð regla í alþjóðlegum handbolta," sagði Jensen við norsku fréttastofuna NTB eftir leikinn.

Jensen er þekktur fyrir að vera einn harðasti varnarmaðurinn í handboltanum og er hann ekki efstur á jólakortalistanum hjá mörgum andstæðingum. Jensen fékk rautt spjald í fyrsta leiknum á EM fyrir gróft brot gegn Slóvenum og koma það ekki mörgum á óvart að Jensen kæmi sér í slíkar aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×