Handbolti

Ísland öruggt með sæti í efsta styrkleikaflokki í undankeppni HM 2013

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Strákarnir okkar í leiknum gegn Slóveníu í gær.
Strákarnir okkar í leiknum gegn Slóveníu í gær. Mynd/Vilhelm
Þar sem Ísland er komið áfram í milliriðlakeppnina á EM í handbolta er ljóst að strákarnir okkar verða í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í undankeppni HM 2013.

Ísland mun aldrei lenda neðar en í tólfta sæti en þrettánda sæti dugar til að komast í efsta styrkleikaflokkinn.

Fjögur lið eru úr leik á EM í Serbíu og verða í öðrum styrkleikaflokki. Það eru Noregur, Tékkland, Rússland og Slóvakía.

Í neðsta styrkleikafloknum verða þær sjö þjóðir sem komust áfram upp úr undankeppninni sem fór fram nú fyrr í mánuðinum.

Þrjú efstu liðin á EM í Serbíu tryggja sér beinan þátttökurétt á HM í Spáni á næsta ári. Þar að auki hafa Spánverjar (gestgjafar) og Frakkar (heimsmeistarar) þegar tryggt sér þátttökurétt. Ef þær tvær þjóðir verða á meðal efstu þriggja liðanna á mótinu í Serbíu munu næstu lið á eftir fá HM-sæti.

Það er því ljóst að fimmta sætið á EM í Serbíu mun mögulega gefa farseðil á HM á Spáni.

Venjan er að draga í undankeppnina sama dag og úrslitaleikurinn á Evrópumeistaramótinu fer fram.

Þess má geta að Patrekur Jóhannesson er þjálfari austurríska landsliðsins sem komst áfram upp úr sínum riðli í undankeppninni.

1. styrkleikaflokkur: Sjö bestu þjóðirnar á EM sem ekki komast beint á HM á Spáni.

2. styrkleikaflokkur: Noregur, Tékkland, Rússland og Slóvakía.

3. styrkleikaflokkur: Austurríki, Bosnía & Hersegóvína, Hvíta-Rússland, Litháen, Svartfjallaland, Holland og Portúgal.

Svona fer drátturinn fram:

1. Fyrst verður dregið úr 2. styrkleikaflokki. Tvö lið verða blindandi sett í 1. styrkleikaflokk en hinar tvær í 3. styrkleikaflokk.

2. Lið úr 1. og 3. styrkleikaflokki verða dregin saman. Þau lið mætast heima og að heiman í júní næstkomandi og sigurvegari viðureignanna fá þátttökurétt á HM á Spáni 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×