Handbolti

Þjóðverjar náðu jafntefli gegn Serbíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Momir Ilic sækir hér að Oliver Roggisch.
Momir Ilic sækir hér að Oliver Roggisch. Nordic Photos / AFP
Sven-Sören Christophersen var hetja Þýskalands er hann tryggði sínum mönnum jafntefli, 21-21, gegn gestgjöfum Serba á EM í handbolta í kvöld.

Mikil spenna var á lokamínútum leiksins en ekkert var skorað síðustu sex mínútur leiksins nema markið sem Christophersen skoraði.

Staðan í hálfleik var 12-7 fyrir Serba sem voru oftast með undirtökin í leiknum. En Þjóverjar gáfust aldrei upp og sóttu stig af mikilli hörku gegn liði sem var gríðarlega vel stutt af háværum áhorfendum.

Mest varð forysta Serba sex mörk í upphafi fyrri hálfleiks, 16-10, en Þjóðverjar skoruðu þá átta af næstu tíu mörkum leiksins og jöfnuðu metin í 18-18.

Momir Ilic var markahæstur Serba með sex mörk en hjá Þjóðverjum skoraði Uwe Gensheimer fimm, þar af þrjú víti. Holger Glandorf og Patrick Grötzki skoruðu fjögur hvor.

Þessi lið komu inn í milliriðlakeppnina með fullt hús stiga og deila því enn efsta sæti 1. milliriðls með fimm stig hvort.

Úrslit, dagskrá og staðan í öllum riðlum á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×