Handbolti

Arnór: Mun líða vel í leiknum

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Mynd/Vilhelm
Hörkutólið Arnór Atlason lét ekki slæmt bak aftra sér frá því að æfa með landsliðinu í gær. Arnór er lítið fyrir að væla og kýs að láta verkin tala sem hann hefur heldur betur gert í Serbíu.

„Mér fannst betra að hreyfa mig og liðka mig. Ég vildi líka finna hvernig ég væri nákvæmlega. Ég er nógu góður. Maður fer ekkert í gegnum svona mót án þess að verða fyrir smá hnjaski. Ég hef engar áhyggjur af þessu og efast ekkert um annað en að mér muni líða vel í leiknum," sagði Arnór ákveðinn.

„Nú eru bara tveir leikir á tveim dögum og svo tökum við stöðuna eftir það. Það er hægt að gefa sig alla í þá. Við erum bara að hugsa um Spánverjaleikinn núna og það gaf okkur mikið að spila góðan leik gegn Ungverjum. Upp á húmorinn og stemninguna. Andinn er allur léttari núna," sagði Arnór.

„Spænska liðið verður erfitt viðureignar en það er enginn beygur í okkur. Við hugsum bara um okkur sjálfa og ef við erum með gleðina og baráttuna að vopni getum við gert þeim skráveifu. Þetta verður bara gaman."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×