Handbolti

Guðmundur: Sorglegt að klúðra öllum þessum færum

Henry Birgir Gunnarsson í Novi Sad skrifar
Guðmundur lét vel í sér heyra á hliðarlínunni.
Guðmundur lét vel í sér heyra á hliðarlínunni. mynd/vilhelm
Landsliðsþjálfarinn Guðmundur Guðmundsson var þungur á brún eftir tapið gegn Spáni og svekktur því honum fannst að íslenska liðið hefði getað gert betur í leiknum.

"Þetta var mjög erfið byrjun og hún fór illa með okkur. Það er erfitt að vinna upp sjö marka forskot gegn Spáni. Mér fannst við þó berjast og gefa allt í þetta. Við náðum að koma okkur inn í leikinn og munurinn fjögur mörk í hálfleik. Sá munur hefði verið minni ef við hefðum nýtt dauðafærin okkar betur. Svo förum við með víti, fáum á okkur ruðninga og köstum frá okkur boltanum," sagði Guðmundur.

"Þetta er svolítið sorglegt ef maður horfir á fyrri hálfleikinn. Við erum fjórum undir en klúðrum fullt af færum. Ef við hefðum nýtt helminginn af því værum við inn i leiknum af fullum krafti.

"Í síðari hálfleik fannst mér við fá tækifæri til þess að komast aftur inn í leikinn. Bjöggi að verja vel og vörnin að standa vel. Þá hentum við frá okkur boltanum, hirtum ekki fráköst og misnotum dauðafæri. Heilt yfir er leikurinn ekki nægilega góður af okkur hálfu og sérstaklega sóknarlega.

"Ég er samt ánægður með baráttuna því mér fannst drengirnir aldrei gefast upp. Það var bara haldið áfram," sagði þjálfarinn en hann grét öll töpuðu færin.

"Það munar bara fimm mörkum í leikslok og ég held að við klúðrum að minnsta kosti tólf dauðafærum í bland við alla tæknifeilana. Það er sorglegt að vita til þess að við hefðum getað gert ýmislegt ef við hefðum nýtt færin og fækkað þessum feilum."

Guðmundur er verulega ánægður með innkomu nýliðanna sem hafa minnst hraustlega á sig á þessu móti.

"Ég er mjög ánægður með það. Þeir hafa komið skref fyrir skref inn í þetta hjá okkur og búnir að kynnast vinnubrögðunum. Ég er ánægður hvernig þeir koma svo inn núna. Við skulum sjá á morgun hvort þeir fái ekki fleiri tækifæri," sagði þjálfarinn sem ætlar samt að gefa allt svo Ísland vinni leikinn.

"Við ætlum að standa okkur í leiknum gegn Frökkunum en hann verður mjög erfiður. Ég held að þetta verði leikur sem skiptir öllu máli fyrir Frakka. Þá verður hann erfiðari fyrir vikið. Við ætlum að mæta, standa okkur og spila góðan handbolta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×