Handbolti

AG þarf ekki að hafa áhyggjur af Rutenka á Parken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Siarhei Rutenka.
Siarhei Rutenka. Mynd/Nordic Photos/Getty
Stórskyttan Siarhei Rutenka missir af fyrri leik Barcelona og danska liðsins AG frá Kaupmannahöfn í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta eftir að ljóst varð að EHF staðfesti leikbann hans.

Rutenka verður því ekki með Barcelona-liðinu þegar það mætir á Parken 20. apríl næstkomandi en getur tekið þátt í seinni leiknum í Barcelona 28. april.

Rutenka fékk beint rautt spjald fyrir brot á Frakkanum Nicola Karabatic í leik Barcelona og Montpellier í 16 liða úrslitunum. Barcelona áfrýjaði dómnum en EHF staðfesti að leikmaðurinn yrði í banni í næsta leik.

Siarhei Rutenka og félagar unnu Meistaradeildina á síðasta tímabili en hann vann einnig Meistaradeildina þrisvar sinnum með Ólafi Stefánssyni hjá spænska liðinu BM Ciudad Real.

Ólafur Stefánsson verður í eldlínunni með AG ásamt landsliðsmönnunum Arnóri Atlasyni, Snorra Stein Guðjónssyni og Guðjóni Val Sigurðssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×