Handbolti

Rhein-Neckar Löwen vann í Melsungen - Kári innsiglaði sigur Wetzlar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Kristjánsson.
Kári Kristjánsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Rhein-Neckar Löwen hefur unnið tvo fyrstu leiki tímabilsins í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta eftir að liðið fór til Melsungen í kvöld og vann heimamenn 26-23. Guðmundur Guðmundsson þjálfari liðið og Alexander Petersson er á sínu fyrsta tímabili með Löwen. Kári Kristjánsson innsiglaði sigur Wetzlar í Balingen.

Alexander Petersson skoraði fjögur mörk í kvöld en markahæstir voru þeir Uwe Gensheimer og Marius Steinhauser með sex mörk hvor. Svíinn Kim Ekdahl du Rietz skoraði fjögur mörk eins og Alexander.

Rhein-Neckar Löwen var 15-9 yfir í hálfleik en Melsungen var búið að minnka forskotið í tvö mörk á lokakafla leiksins. Uwe Gensheimer skoraði tvö síðustu mörk Löwen og innsiglaði sigurinn.

Kári Kristjánsson skoraði fjögur mörk fyrir HSG Wetzlar sem vann flottan 28-26 útisigur á Balingen-Weilstetten. Kári innsiglaði sigurinn með því að skora lokamark leiksins átta sekúndum fyrir leikslok. Fannar Þór Friðgeirsson komst ekki á blað hjá Wetzlar.

Wetzlar var 24-22 undir þegar 12 mínútur voru eftir en vann lokakafla leiksins 6-2. Kári skoraði þrjú mörk á síðustu þrettán mínútum leiksins.

Sverre Andre Jakobsson og félagar í TV Grosswallstadt töpuðu 29-19 á útivelli á móti HSV Hamburg þar sem að "Íslendingurinn" Hans Lindberg skoraði 12 mörk fyrir HSV. Sverre Andre komst ekki á blað en fékk eina brottvísun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×