Handbolti

Umfjöllun: Füchse Berlin - AG 21-26 | Danirnir tóku bronsið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Köln skrifar
Nordic Photos / Getty
Íslendingarnir fjórir í danska liðinu AG unnu til bronsverðlauna í Meistaradeild Evrópu eftir sigur á þýska liðinu Füchse Berlin í dag. Mögnuð frammistaða markvarðarins Kasper Hvidt í fyrri hálfleik og öflugur sóknarleikur AG í þeim síðari skóp sigurinn.

Arnór Atlason og Ólafur Stefánsson skoruðu þrjú mörk hvor fyrir AG og Guðjón Valur Sigurðsson tvö. Snorri Steinn Guðjónsson fékk lítið að spila í þetta skiptið og komst ekki á blað. Hjá Füchse Berlin skoraði Alexander Petersson fjögur mörk og var meðal markahæstu manna í sínu liði.

Eftir kaflaskiptan fyrri hálfleik þar sem að Hvidt sýndi ótrúlega takta í markinu náði AG að komast fjórum mörkum yfir, 13-9. AG tók svo völdin endanlega í seinni hálfleik og komst í þægilega forystu. Berlínarliðið náði að minnka muninn í seinni hálfleik en náði þó aldrei að hleypa verulegri spennu í leikinn.

AG byrjaði ótrúlega í leiknum og var komið í 4-0 eftir átta og hálfa mínútu en þá var Dagur Sigurðsson búinn að fá nóg og tók leikhlé. Kasper Hvidt var þá búinn að verja öll skot Füchse Berlin á upphafsmínútunum en Berlínarliðið mátti þakka sínum eigin markverði, Silvio Heinevetter, að vera ekki komnir 7-8 mörkum undir. Heinevetter var besti maður Berlínarliðsins og sá til þess að AG náði aldrei að stinga almennilega af.

Evgeni Pevnov náði loksins að koma Berlínarliðinu á blað með marki úr hraðaupphlaupi eftir tæplega tíu mínútna leik, eftir stoðsendingu Alexanders Peterssonar. Hvidt var þá búinn að verja sjö fyrstu skotin í leiknum.

Eftir að Füchse Berlin náði að brjóta ísinn opnaðist fyrir flóðgáttirnar og Þjóðverjarnir skoruðu næstu fimm mörk í leiknum. Vörnin small hjá þeim, Heinevetter hélt áfram að verja vel og í sókninni var Iker Romero magnaður.

AG komst þó aftur yfir og hélt undirtökunum allt til loka fyrri hálfleiksins. Vörn liðsins var öflug en fyrst og fremst var það frammistaða Hvidt í markinu sem lagði grunninn að forystunni en hann varði alls sautján skot í fyrri hálfleiknum.

Arnór og Ólafur spiluðu allan fyrri hálfleikinn í sókn AG en Snorri Steinn Guðjónsson fékk einnig nokkrar mínútur.

Guðjón Valur Sigurðsson hvíldi allan fyrri hálfleikinn en kom inn í þann síðari af gríðarlegum krafti. Hann lét til sín taka í vörninni og spilaði einnig af öryggi í sókn.

Mikkel Hansen fékk einnig að hvíla í nokkrar mínútur í lok fyrri hálfleiksins og var sömuleiðis afar öflugur í þeim síðari. Hann fór fyrir sóknarleik Dananna sem nýttu sér meðbyrinn til að sigla fram úr, hægt og rólega.

Alexander Petersson reyndi hvað hann gat til að halda í við Danina, eins og aðrir í Berlínarliðinu, en í þetta sinn reyndist vörn AG og Hvidt í markinu þeim ofviða. Füchse Berlin er þekkt fyrir sína mikla baráttu en í þetta sinn varð liðið að játa sig sigrað.

Hvort að Ólafur Stefánsson hafi verið að spila í síðasta sinn í lokaúrslitum Meistaradeildar Evrópu verður að koma í ljós en óhætt er að segja að hann hafi skilað sínu, rétt eins og aðrir Íslendingar í liðinu. Þó svo að ekki allt hafi gengið upp hjá Ólafi í dag var hann óþreytandi og getur farið stoltur aftur heim til Danmerkur, rétt eins og aðrir í liði AG.

Berlínarliðið kom mörgum á óvart með því að komast svo langt í keppninni og ljóst var að undanúrslitaleikurinn gegn Kiel hafði kostað leikmenn nokkuð þrek. Alexander Petersson var frábær í þeim leik og átti einnig góðar rispur í dag. Fyrst og fremst var gott að sjá þennan magnaða leikmann spila handbolta á ný, eftir langa fjarveru vegna meiðsla.

Dagur Sigurðsson hefur skapað sér stórt nafn í þjálfarastétt handboltans og ekki minnkaði orðstír hans við framgöngu hans manna um helgina, svo mikið er víst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×