Handbolti

Ólafur: Markmiðið að vera geðveikur á Ólympíuleikunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Köln skrifar
Ólafur Stefánsson leikmaður AG viðurkenndi að það hefði verið erfitt að rífa sig upp fyrir leikinn um 3. sætið eftir tapið í undanúrslitum gegn Atlético Madrid í Meistaradeild Evrópu í handbolta í gær.

„Já, það var erfitt. Ég reyndi að taka því þannig að maður eigi kannski ekki mikið eftir og besta leiðin að reyna að gleyma sér í góðum handboltaleik. Ég var ekkert endilega góður en ég er glaður að vinna," sagði Ólafur sem skoraði þrjú mörk en lagði upp sjö fyrir liðsfélaga sína í leiknum.

AG á í harðri baráttu um meistaratitilinn í Danmörku. Ólafur vonast til að ná að hvíla sig vel fyrir það verkefni og hlakkar til.

„Það er aftur tækifæri til þess að næla sér í dollu. Andstæðingarnir eru ekkert auðveldir þannig að það er verðugt verkefni," sagði Ólafur.

Landsliðsfyrirliðinn sagðist ekki vita hvort hann myndi spila með AG á næstu leiktíð.

„Ef ég vissi það myndi ég segja það. Ég veit það ekki sjálfur. Hnéð á mér er kenjótt. Markmið mitt núna er að klára tímabilið með AG og vera geðveikur á Ólympíuleikunum og hjálpa til þar. Eftir það veit ég ekki hvað gerist," sagði Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×