Handbolti

Þjóðverjar björguðu sér fyrir horn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þjóðverjar fögnuðu gríðarlega í leikslok.
Þjóðverjar fögnuðu gríðarlega í leikslok. Nordic Photos / Getty Images
Þýskaland vann nauman og afar mikilvægan sigur á Makedóníu á EM í Serbíu í dag, 24-23. Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson dæmdu leikinn.

Uwe Gensheimer skoraði sigurmark Þjóðverja þegar rúm mínúta var til leiksloka en leikurinn var í járnum nánast frá fyrstu mínútu. Staðan í hálfleik var 12-12.

Þeir þýsku komust reyndar yfir, 3-0, en þá skoruðu Makedóníumenn þrjú mörk í röð. Þjóðverjar náðu mest tveggja marka forystu eftir það en Makedónía komst líka í tveggja marka forystu snemma í síðari hálfleik.

Jafnt var á nánast öllum tölum síðasta stundarfjórðunginn og Makedónía var með forystu, 23-22, þegar þrjár mínútur voru eftir. En Þjóðverjar náðu að skora síðustu tvö mörkin og fagna sigri.

Anton og Hlynur dæmdu í dag fyrsta leikinn sinn á stórmóti karla og stóðu sig vel. Mikil læti voru á meðal áhorfenda, sérstaklega þeirra fjölmörgu sem studdu Makedóníu. Oliver Roggisch, varnarmaður Þýskalands, fékk að líta rauða spjaldið fyrir þrjár brottvísanir.

Lars Kaufmann skoraði sex mörk fyrir Þýskaland og þeir Gensheimer og Christoph Teuerkauf þrjú hvor. Hjá Makedóníu var Kiril Lazarov markahæstur með sjö mörk en Stojanche Stoilov skoraði sex.

Þýskaland er nú með tvö stig í B-riðli en Makedónía eitt. Tékkland og Svíar mætast svo í síðari leik dagsins í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×