Handbolti

Leikmaður Noregs og þjálfari Ungverja eru ekki lengur í sambandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heidi Loke, númer 6, fagnar hér einum af sigrum norska landsliðsins á EM.
Heidi Loke, númer 6, fagnar hér einum af sigrum norska landsliðsins á EM. Mynd/AFP
Noregur og Ungverjaland mætast í dag í undanúrslitum á EM kvenna í handbolta sem fer fram í Serbíu. Fyrir leikinn hafa norskir fjölmiðlar verið uppteknir af sambandi línumannsins Heidi Löke og Karl Erik Böhn, norskum þjálfara ungverska landsliðsins.

Heidi Löke ákvað því að senda frá sér fréttatilkynningu í gærkvöldi, kvöldið fyrir undanúrslitaleikinn á móti Ungverjalandi, þar sem hún gaf það út að hún og Karl Erik Böhn væru ekki lengur í sambandi og sambandinu hafi í raun endað fyrir nokkru síðan.

Löke og Karl Erik Böhn tóku upp samband þegar hann þjálfaði hana hjá Larvik og hann hefur einnig þjálfað hana hjá ungverska félaginu Györ þar sem hún spilar núna.

Böhn missti reyndar starfið hjá Larvik á sínum tíma þar sem norska félagið kenndi honum um að Löke fór frá Larvik til ungverska félagsins. Hann fylgdi Löke til Vín þar sem hún gekk frá samningi við Györ án vitundar norska félagsins.

Karl Erik Böhn er 47 ára gamall og hefur nú þjálfað ungverska landsliðið síðan í ágúst 2011 en hann varð fyrsti erlendi þjálfarinn sem tekur við landsliðinu. Ungverska liðið er að gera flotta hluti á EM eftir að hafa misst af tveimur stórmótum þar á undan.

Heidi Löke er þrítug og einn besti línumaður heims. Hún hefur verið í úrvalsliðinu á undanförnum þremur stórmótum og er alls búin að vinna fjögur gull með norska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×