Bakþankar

Umræðan um umræðuna

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Íslendingar eru ekki sammála um margt en ég hugsa að 99 prósent landsmanna séu sammála um það að íslensk umræðuhefð sé ömurleg. Ég hef ekki tölu á öllum þeim pistlum, statusum og kommentum sem ég hef lesið um hvað umræðan sé vond; að við séum sífellt að karpa um aukaatriði, fara í manninn en ekki boltann, færa ekki rök fyrir máli okkar og svo er smiðshöggið rekið með tilvitnun í það sem Halldór Laxness sagði um kjarna málsins. Allt má þetta sjálfsagt til sanns vegar færa. Hins vegar er umhugsunarefni hvers vegna umræðuhefð sem svo mikil og víðtæk óánægja ríkir um er stunduð af jafn miklu kappi og raun ber vitni.

Helsti vettvangur hinnar eitruðu umræðu er vitaskuld netið, þar sem allstór hópur fólks hamast við að hafa ekkert fram að færa og fréttir netmiðlanna snúast í auknum mæli um hvað einhverjum finnst. Það er gömul tugga að allir eigi rétt á sinni skoðun og að það sé bara gott að fólk hafi ólíkar skoðanir. Það er ágætt eins langt og það nær en þótt manni finnist eitthvað þýðir það ekki að það eigi sjálfkrafa sérstakt erindi í umræðuna. Allar skoðanir eru nefnilega ekki jafngildar.

Ég þekki þetta á eigin skinni. Ég er ofboðslega skoðanaríkur, það fer í taugarnar á mér þegar fólk er ósammála mér og ég hef ríka þörf til að eiga síðasta orðið í samræðum. Sumsé uppskriftin að hinum óþolandi netverja. Á einhverjum tímapunkti áttaði ég mig á að það væru ekki forréttindi annarra að heyra skoðanir mínar á hinum og þessum álitamálum og ég fór að gera mér far um að reyna að sitja á strák mínum. Mæla þarft eða þegja. Mér dettur ekki í hug – allra síst í skoðanapistli – að halda því fram að það hafi alltaf lukkast en viðleitnin er að minnsta kosti til staðar.

Lýðræðisleg og frjáls umræða er auðvitað af hinu góða og það er jákvætt að láta sig málin varða og leggja orð í belg á opinberum vettvangi. Það getur líka verið gaman að skeggræða málin í góðra vina hópi; leysa lífsgátuna, laga fjárlagahallann og finna leiðina að því að gera knattspyrnudeild Harðar á Patreksfirði að Íslandsmeistara í einu samtali. En stundum fær maður á tilfinninguna að sumir rugli saman skoðanafrelsi og skoðanaskyldu. Þótt orðið sé frjálst þarf það ekki að hlaupa í gönur. Í mörgum tilfellum er rétturinn til að halda skoðunum okkar fyrir okkur sjálf hugsanlega það besta sem við getum gert íslenskri umræðuhefð eins og fyrir henni er komið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×