Handbolti

Ólafur Guðmundsson genginn til liðs við Kristianstad

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur varð Íslandsmeistari með FH árið 2011.
Ólafur varð Íslandsmeistari með FH árið 2011.
Handboltamaðurinn Ólafur Guðmundsson hefur samið við sænska úrvalsdeildarfélagið IFK Kristianstad. Ólafur kemur frá danska stórliðinu AG Kaupmannahöfn en hann var í láni hjá Nordsjælland á síðustu leiktíð.

„Hann hefur með frammistöðu sinni með Nordsjælland sýnt að við höfðum rétt fyrir okkur um hæfileika hans. Samkeppnin hjá AGK er svo hörð að hann hefði ekki fengið nægan leiktíma til þess að blómstra," segir Sören Coldin íþróttastjóri AGK á heimasíðu félagsins.

Ólafur hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið í undanförnum verkefnum en gekkst undir uppskurð í apríl vegna axlarmeiðsla. Hann gat af þeim sökum ekki gefið kost á sér í leiki Íslands gegn Hollendingum í undankeppni heimsmeistaramótsins á dögunum.

AGK hefur tryggt sér kaupréttinn á Ólafi sem félagið hyggst notfæra sér haldi hann áfram að taka framförum.

„Við höfum metið það í sameiningu að best sé að leiðir skilji nú. Hann getur því búið sig undir meiri spiltíma og það verður ró yfir framtíð hans," sagði Colding.

Hjá Kristianstad hittir Ólafur fyrir nafna sinn Ole Lindgren, varnartröll úr gullaldarliði Svía á 9. og 10. áratug síðustu aldar. Hjá AGK var Ólafur einmitt undir stjórn kollega Lindgren úr sænska landsliðinu, Magnusar Anderson.

Ólafur hafði verið orðaður við sænska félagið um nokkuð skeið líkt og því má segja að tíðindin komi ekki á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×