Handbolti

Það var erfitt að missa af ferðinni til Peking

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Vignir missti sæti sitt til Peking á elleftu stundu en fer með til London.
Vignir missti sæti sitt til Peking á elleftu stundu en fer með til London. fréttablaðið/vilhelm
Línumaðurinn Vignir Svavarsson hefur í tvígang verið í undirbúningshópi íslenska handboltalandsliðsins fyrir Ólympíuleika en ekki enn farið á leikana.

Fyrir leikana í Aþenu árið 2004 var hann ekki valinn í lokahópinn en fyrir leikana í Peking átti hann víst sæti í hópnum. Nokkrum dögum áður en velja átti hópinn dundi ógæfan yfir. Vignir reif magavöðva og gat ekki tekið þátt í silfurævintýrinu.

„Þetta voru eiginlega mín fyrstu meiðsli á ferlinum. Þetta var virkilega súrt. Ég get ekki neitað því. Þetta var mjög erfitt," sagði Vignir er hann var beðinn um að rifja upp þennan erfiða tíma fyrir fjórum árum síðan.

Hann fór fljótlega út til Þýskalands til þáverandi félags síns, Lemgo, og var þar á meðan strákarnir spiluðu í Peking.

„Ég sá ekki leik fyrr en í átta liða úrslitunum. Þá var ég hættur að vera bitur og gat fagnað góðu gengi hjá drengjunum en fyrstu dagarnir voru erfiðir. Það var ekki verið að sýna íslensku leikina mikið í Þýskalandi og ég var ekkert sérstaklega að falast eftir því að sjá þá."

Nú er aftur á móti loksins komið að því að línumaðurinn harði úr Hafnarfirði fái að vera með.

„Það er virkilega góð tilfinning að vera að fara út og ég get ekki neitað því að ég er spenntur. Ég er líka ánægður að vera í hópnum því það var örugglega ekkert auðvelt fyrir Gumma að velja í þennan hóp," sagði Vignir en hann á ekki von á öðru en að upplifunin í London verði jákvæð.

„Ég veit ekki alveg hvað ég er að fara út í. Ég held samt að upplifunin að vera á Ólympíuleikum sé mjög sérstök og ég hlakka eiginlega mest til þess að fá að upplifa að vera á staðnum. Þegar ég komst í undirbúninginn fyrir Aþenu setti ég mér markmið að komast á ÓL fjórum árum seinna. Það gekk ekki eftir en þetta kemur vonandi núna eftir átta ára bið."


Tengdar fréttir

Guðmundur: Mjög erfitt að velja hópinn

"Það var gríðarlega erfitt að velja hópinn og ekki síður erfitt að tjá þeim leikmönnum sem ekki fara með frá ákvörðun minni," sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, en hann tilkynnti í morgun hvaða 15 leikmenn hann tekur með sér á ÓL í London.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×