Viðskipti innlent

Ræða um að draga kaupréttina til baka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Rætt er um það innan stjórnar Eimskips að falla frá kaupréttarsamningum sem voru gerðir við helstu stjórnendur fyrirtækisins, samkvæmt heimildum Vísis. Stjórn fyrirtækisins, að undanskildum stjórnarformanninum, hefur fundað um útboð á bréfum í fyrirtækinu frá því að því lauk klukkan tvö í dag.

Ástæðan er ekki síst þrýstingur frá stéttarfélögunum sem eiga aðild að helstu lífeyrissjóðum landsins. Eins og greint var frá í morgun sendi Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, framkvæmdastóra Lífeyrissjóðsins Festi skilaboð um að hann myndi hvetja félaga í Verkalýðsfélaginu til að yfirgefa lífeyrissjóðinn. Þá ákváðu Gildi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins að taka ekki þátt í útboðinu sem lauk í dag, bæði vegna þess hve verðið á bréfunum er hátt en líka vegna kaupréttasamningamálsins.

Loks barst fréttatilkynning frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna í dag, þar sem fram kemur að stjórn lífeyrissjóðsins ætlar að beita áhrifum sínum innan stjórnar Eimskips til að hófs verði gætt varðandi kjör stjórnenda félagsins. Lífeyrissjóður verzlunarmanna ákvað í vor að kaupa 14% hlut í fyrirtækinu.

Vísir náði tali af Ólafi William Hand, upplýsingafulltrúa Eimskips, í dag. Hann sagðist ekkert geta tjáð sig um málið, að öðru leyti en því að verið væri að funda um niðurstöður útboðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×