Handbolti

Ljónin hans Guðmundar úr leik í EHF-bikarnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur og félagar geta farið að einbeita sér að deildinni þar sem liðið situr í 5. sæti.
Guðmundur og félagar geta farið að einbeita sér að deildinni þar sem liðið situr í 5. sæti. Nordic Photos / Getty
Rhein-Neckar Löwen tapaði í kvöld með fjórum mörkum í síðari undanúrslitaviðureign sinni gegn Göppingen í EHF-bikarnum. Löwen er úr leik eftir eins marks sigur í fyrri leiknum.

Heimamenn í Göppingen höfðu frumkvæðið í leiknum frá upphafi til enda. Liðið komst yfir 9-3 eftir tólf mínútna leik og leiddi í hálfleik 16-13.

Ljónin mættu ákveðin til leiks í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í eitt mark 16-15 en þá skildu leiðir. Göppingen náði mest sex marka forystu og vann öruggan fjögurra marka sigur 33-29.

Tékkinn Pavel Horák skoraði tíu mörk fyrir Göppingen en Michael Müller sjö fyrir gestina. Róbert Gunnarsson komst ekki á blað hjá Löwen.

Göppingen, sem á titil að verja í keppninni, mætir annaðhvort Björgvini Páli Gústavssyni og félögum í Magdeburg eða franska liðinu Dunkerque í úrslitum. Liðin mætast í síðari viðureign sinni í Frakklandi á sunnudag.

Það verður við rammann reip að draga hjá Björgvini Páli og félögum en franska liðið vann fyrri leikinn í Þýskalandi með fimm marka mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×