Handbolti

Ágúst: Nú fer maður og talar við þær - Við getum betur en þetta

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Ágúst á hliðarlínunni í Vrsac í dag.
Ágúst á hliðarlínunni í Vrsac í dag. Mynd/Stefán
Ágúst Þór Jóhannsson, landsliðsþjálfari, var að sjálfsögðu ekki ánægður eftir tíu marka tap á móti Svartfjallalandi í kvöld, 16-26, í fyrsta leik Íslands á EM kvenna í handbolta í Serbíu.

„Við vorum að spila undir getu. Eitt er að tapa á móti frábæru liði og silfurhöfunum frá því á Ólympíuleikunum í sumar en mér fannst mínar stelpur ekki vera nógu harðar og hreinlega frekar linar sóknarlega. Við gáfum pínu eftir og bökkuðum á undan baráttunni," sagði Ágúst og bætti við:

„Í ofanálag vorum við að klára illa þegar við komum okkur í færi. Markmaðurinn er besti maðurinn hjá þeim með 23 bolta varða og það er hrikalega erfitt. Við erum aldrei almennilega í takt sóknarlega á móti þeim," sagði Ágúst.

„Við þurfum heldur betur að gera betur á morgun. Það eina jákvæða við þetta er að ég veit að við spilum ekki tvo leiki svona illa, það verða ekki aftur svona margar sem spila undir getu," sagði Ágúst en íslenska landsliðið mætti Svartfjallalandi í hefndarhug í kvöld.

„Við vissum að þetta væri hrikalega erfitt verkefni þó að við höfum að sjálfsögðu farið inn í þennan leik með því hugarfari að vinna hann. Þær eru númeri of stórar og við þurfum bara að einbeita okkur að næsta verkefni sem eru Rúmenar. Nú þurfum við að nota tímann og undirbúa okkur að kostgjæfni fyrir það," sagði Ágúst sem þarf að rífa upp sínar stelpur í kvöld.

„Nú fer maður og talar við þær. Við reynum að peppa okkur saman og fara í sjúkraþjálfun og annað í kvöld. Við þurfum að vinna aðeins í vídeó-vinnu og undirbúa okkur. Við sjáum til hvort við getum ekki reynt að töfra eitthvað fram á morgun. Við getum betur en þetta," sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×